Einhver mest spennandi opnun síðari tíma í laxveiði hófst í morgun. Veiðimenn mættu á Iðu og hófu veiðar snemma í morgun. Miklar deilur hafa staðið milli Iðuliða og stjórnar Stóru–Laxár í vetur. Finnur Harðarson landeigandi og leigutaki að Stóru–Laxá hefur sótt hart fram í því að stöðva veiði á Iðu, sem er svæðið þar sem Stóra sameinast Hvítá. Nú er unnið að gerð ósamats þar sem úrskurðað verður um hvar veiðimörk liggja.
Í vetur sagði stjórn Veiðifélags Stóru–Laxár upp gömlum samningi um afnot af Iðunni, sem samið var um á sínum tíma að kæmi í stað arðgreiðslna til Iðujarða. Þrjár stangir á Iðunni eru af þeim sökum í nokkru uppnámi.
Iðuliðar hafa ítrekað læst hliði að slóðanum sem liggur niður að veiðisvæðinu og hefur Finnur Harðarson jafn harðan mætt með slípirokk og skorið lás og þykka keðju í sundur og ekið niður að svæðinu. Það gerði hann einnig í morgun. „Ég skar á lás númer 22 í morgun. Ég hélt að þetta væri einhver sérstyrktur lás. Það stóð Cryptonite á honum, en þetta var bara eitthvað plast dót,“ upplýsti Finnur í stuttu samtali við Sporðaköst. Cryponite er efnið sem dregur allan mátt úr Súperman en það truflaði ekki Finn Harðarson.
Kallað hefur verið á lögreglu og síðast þegar Sporðaköst höfðu spurnir af stöðunni var lögregla mætt á svæðið og ræddi við veiðimenn og fjölmarga Iðuliða. Óhætt er að segja að andrúmsloftið er þrungið spennu.
Fjölmargir voru mættir við Iðu í morgun og ríkti spenna um hvað myndi gerast. Báðir aðilar höfðu verið ósparir á yfirlýsingar, bæði opinberlega og einnig manna á meðal. Áttu menn jafnvel von á sveitum beljaka sem myndu takast á til að verja þann rétt sem báðir aðilar telja sig hafa yfirráð yfir.
Þrír laxar voru komnir á land á Iðu, síðast þegar Sporðaköst fréttu og einn var misstur. Veiði í Stóru–Laxá hefst svo eftir hádegi en áin er í litlu vatni. Það skapar aftur á móti kjörskilyrði á Iðunni því laxinn hikar við að ganga upp í Stóru þegar aðstæður eru með þessum hætti.
Búst var við ósamat myndi liggja fyrir um svipað leiti og veiðitímabil væri að hefjast en nú hefur sá frestur sem stjórnvaldsnefndin sem vinnur málið, verið framlengdur fram yfir miðjan júlí. Ráðlegt væri fyrir nefndina að hraða vinnu sinni þannig að réttaróvissu á svæðinu verði eytt.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |