Eitt umdeildasta verkefni Sporðakasta er svokallaður hundraðkallalisti þar sem greint er frá allra stærstu löxunum sem veiðast hverju sinni. Þetta er sjötta árið sem listinn er tekinn saman. Einn hundraðkall hefur ratað á listann og veiddist hann í Sandá í Þistilfirði.
Þessi listi hefur orðið tilefni, ekki bara umræðna heldur einnig rifrildis þar sem ýmsar ásakanir hafa fokið. En í grunninn er þetta einfalt. Taka góðar myndir og vanda mælingu ef fiskurinn nær hundrað sentímetrum.
Til að fiskur rati inn á listann þurfa nokkur atriði að vera uppfyllt.
1. Vitni þarf að vera að mælingu á laxinum og staðfesta mælingu. Þetta er ófrávíkjanleg regla.
2. Góðar ljósmyndir eru nauðsynlegar. Vandið myndatökuna. Haldið um stirtluna og grípið um hana með hendinni, þannig að lófinn snúi að myndavélinni. Það fyrsta sem allir veiðimenn skoða er hvort viðkomandi veiðimaður nær utan um stirtluna. Feli menn þetta grip eða hagræði hefur reynslan sýnt að það veldur tortryggni.
3. Takið málbandsmynd af fiskinum. Þær eru ekki endilega til birtingar en slíka staðfesting er án ef einföldust og áhrifaríkust. Þegar fiskurinn er að jafna sig eftir átökin, áður en honum er sleppt er yfirleitt auðvelt að taka slíka mynd. Leggja hann á hliðina þó þannig að hann nái að súpa vatn og leggja málbandið yfir hann.
Sextán laxar komust á listann í fyrra. Þeir voru 29 sumarið 2023 og 30 árið þar á undan. Þetta eru sjaldséðir gestir og eins og gefur að skilja þeir fiskar sem oftast sleppa. Til að landa svo stórum laxi þarf margt að ganga upp.
Fyrsti hundraðkallinn veiddist í Sandá í Þistilfirði og það var Eiður Pétursson sem veiðigyðjan heiðraði með stórglæsilegum laxi í Ólafshyl. Myndin sem fylgir með fréttinni af Eiði sýnir rétt handtak um stirtlu.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |