Tveir af reynslumestu veiðimönnum landsins hafa kallað eftir því að sett verði á sölubann á villtum laxi. Árni Baldursson reið á vaðið í vikunni en nú tekur Haraldur Eiríksson undir þetta sjónarmið vill að Hafró og Fiskistofa hysji upp um sig buxurnar og banni netaveiði og setji á sölubann á villtum laxi.
Haraldur Eiríksson er leigutaki Laxár í Kjós og hann hefur áhyggjur af stöðunni, en veiði hefur verið langt undir því sem menn þekkja þar á bæ og víðar, það sem af er veiðitíma. Halli er ekkert að skafa utan af því í pistli sem hann birti á facebooksíðu sinni fyrr í dag. Þar segir hann meðal annars.
„Maður spyr sig hvort að sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar sem sáu óumbeðnir um væntingastjórnunina þetta árið hafi hreinlega gleymt þeirri augljósu breytu sem ógnarkalt vor og sumar getur haft. Hitastig sjávar skiptir nefnilega engu máli ef engin seiði ganga til hafs.
Nú kunna margir að spyrja sig hvort ég sé hér ósanngjarn gagnvart stofnuninni og þeim sérfræðingum sem starfa bæði á Hafró og Fiskistofu og það má vel vera.
Hins vegar geri ég þá kröfu á þá sem á þessum málum halda að þeir bregðist nú við með mannsæmandi hætti þegar að laxagöngur eru jafn litlar og nú í stað þess að stimpla sig út í sumarfrí.
Nú er lag fyrir Fiskistofu og Hafró að hysja upp um sig buxurnar, og setja bann við drápi á stangarveiddum laxi þar til að mögulega úr rætist síðar á tímabilinu. Þá væri hægt að endurmeta stöðu mála með það fyrir augum að tryggja að hrygningarstofn verði hreinlega til staðar í haust.
Jafnframt væri kannski sniðugt fyrir stofnanirnar að banna alla netaveiða á laxi meðan þessi óvissa er uppi og koma um leið á sölubanni líkt og með alla aðra stofna sem verða fyrir áföllum. Ég einfaldlega neita að trúa því að þessir opinberu aðilar ætli sér að leyfa netaveiði í Hvítá, Ölfusá og Þjórsá í núverandi ástandi og leyfa sölu villtra laxa í fiskbúðum landsins. Við stangaveiðimenn höfum jafnaðargeð og munum njóta útiverunnar og samverunnar á bökkunum sem fyrr. En það er ykkar að sjá til þess að mögulega lítill hrygningarstofn verði ekki að engum.
Koma svo.“
Árni Baldursson segir laxinn í útrýmingarhættu og tíminn sé að renna út. Hann vill sölubann á villtum laxi og spyr sig af hverju yfirvöldum sé alveg sama um laxinn okkar.
Ljósmynd/Reynir Sigmundsson
Tíminn er að renna út
Árni Baldursson hafði fyrr í vikunni lýst sambærilegum áhyggjum og hvatti þá sem geta haft áhrif til að beita þeim. Árni skrifaði á facebook á miðvikudag.
„Villtur íslenskur lax er nú til sölu í mörgum búðum á höfuðborgar svæðinu. Ég er skelfingu lostinn, á okkar tímum þegar villti laxinn okkar Íslendinga er í algerri útrýmingarhættu þá er hann enn strá drepinn í net og seldur í verslanir! Þetta getur ekki verið satt seigja menn, enn þetta er dagsatt. Á sínum tíma þegar hallaði undan rjúpnastofninum þá var skilyrðislaust sett sölubann á rjúpu og svo síðar einnig á gæs. Hvernig stendur á að yfirvöldum er alveg sama um villta lax þjóðarinnar? NASF og IWF getið þið tekið þetta áfram fyrir Ísland og krafist sölubanns á villtum laxi, við þurfum snarar hendur tíminn er að renna út,“ skrifar Árni Baldursson.
Spáir góðri veiði næsta sumar
Fjölmargir aðilar hafa tekið undir með Árna og Haraldi. Sá síðarnefndi benti á í færslu sinni á líkindi með stöðunni núna og því sem gerðist hörmungar sumarið 2012 og í framhaldi af því dásamlega sumrinu 2013. Halli sleppti því að mæta á snittufund með Hafrannsóknastofnun síðla maí. Raunar voru ekki snittur á fundinum heldur smurðu menn sér sjálfir, en það er önnur saga.
„Ég kaus að nota þá hitabylgju sem reið yfir landið til að sinna ánum mínum í einmuna blíðu. Það sem vakti hins vegar athygli mína meðan á snittuátinu stóð var ótrúleg niðurganga seiða í kjölfarið á hitunum í vor. Svo mikill var seiðafjöldinn að það fóru að renna á mig tvær grímur.
Í fyrra reið yfir landið kaldasta vor og sumar á þessari öld, eða það sem við í Kjósinni köllum tveggja lopapeysu veður. Svo kalt var víðast um land að dæmi voru um að menn væru að moka bíla úr snjósköflum í júnímánuði. Minnti þetta eldri menn á árin upp úr 1980 sem höfðu miklar afleiðingar fyrir laxastofna víða um land.
Nú er staðan sú að mér þykir einsýnt að laxaseiði hafi ekki gengið til sjávar sl. vor. Þau sem þó lögðu það á sig hafi verið í bágbornu ástandi við niðurgöngu. Því er hætt við að sumarið muni vera í líkingu við veiðisumarið 2012 þar sem lítið var um smálax og megnið af þeim sem þó komu úr sjó voru illa haldnir, 50-55cm langir. Það voru afleiðingar kuldakastsins mikla sem skók landið í maí og júní árið 2011.
Í framhaldinu kom svo stórkostlegt veiðisumar 2013, enda ekki nema von þegar að tveir árgangar laxaseiða skila sér úr sjó á sama sumrinu. Það er því von á góðu veiðisumarið 2026.
Maður spyr sig hvort að sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar sem sáu óumbeðnir um væntingastjórnunina þetta árið hafi hreinlega gleymt þeirri augljósu breytu sem ógnarkalt vor og sumar getur haft. Hitastig sjávar skiptir nefnilega engu máli ef engin seiði ganga til hafs.“
Seinustu hundraðkallar sumarsins
Lengd á laxi |
Veiðisvæði |
Veiðimaður |
Dagsetning
Dags.
|
103 cm |
Miðfjarðará |
Eduardo |
2. júlí
2.7.
|
100 cm |
Sandá í Þistilfirði |
Eiður Pétursson |
24. júní
24.6.
|
Veiðiárið 2024:
|
102 cm |
Hvítá við Iðu |
Ársæll Þór Bjarnason |
19. september
19.9.
|
101 cm |
Víðidalsá |
Stefán Elí Stefánsson |
4. september
4.9.
|
101 cm |
Laxá í Dölum |
Hafþór Jónsson |
27. ágúst
27.8.
|
102 cm |
Haukadalsá |
Ármann Andri Einarsson |
23. ágúst
23.8.
|
103 cm |
Laxá í Aðaldal |
Birgir Ellert Birgisson |
12. ágúst
12.8.
|
Skoða meira