Upp er komið sérstakt mál varðandi stöðu lundastofnsins við Ísland. Erpur Snær Hansen fuglafræðingur segir lundanum vera að fækka. Á sama tíma sakar Skotveiðifélag Íslands Erp um að neita að gefa upp tölur um stofnstærð.
„SKOTVÍS hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum um stofnstærð lunda við Ísland og þróun hennar frá árinu 1995, án árangurs. Opinberar stofnanir segja að rannsóknaraðilar sem fá styrk frá Veiðikortasjóði neiti að veita slíkar upplýsingar. Af þessum sökum er erfitt að eiga upplýsta umræðu um til hvaða aðgerða skuli grípa til,“ segir í yfirlýsingu frá SKOTVÍS á facebooksíðu félagsins.
Hvernig komast menn upp með að svara ekki þegar spurt er um stofnstærð?
„Íslenskir veiðimenn og veiðikonur hafa á undanförnum 30 árum greitt um milljarð í rannsóknir á fuglum og spendýrum. Það er auðvitað vanvirðing við þá þegar grunngögn liggja ekki fyrir eða þau afhent þegar eftir þeim er óskað. Niðurstöður rannsókna sem eru styrktar úr Veiðikortasjóði hafa ekki verið kynntar veiðimönnum með reglulegum hætti undanfarin ár. Það er ólíðandi og þær opinberu stofnanir sem bera ábyrgð þurfa að gera miklu mun betur.
Staðreyndin er að íslenskir veiðimenn taka undir áhyggjur af minnkandi stofnum allra dýrastofna, enda þeirra hagsmunamál að þeir séu sem sterkastir. Veiðimenn eru yfirleitt sá hópur samfélagsins sem fyrstur sýnir ábyrgð og hafa veiðar á svartfugli dregist margfalt saman og eru innan við fimmtungur af því sem var fyrir nokkrum árum. Það er hægt að gera betur en þá er auðvitað mikilvægt að gögn um stofnstærðir og breytingar á þeim liggi fyrir,“ svaraði Áki Ármann Jónsson formaður SKOTVÍS.
Náttúruverndarstofnun og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafa biðlað til veiðimanna og veitingageirans að gæta hófs við lundaveiðar og sölu á lundakjöti. Erpur Snær líkir veiðimönnum sem stunda lundaveiði við álfa út úr hól.
Í yfirlýsingu SKOTVÍS er farið yfir veiðitölur. Hún er í heild sinni hér að neðan.
„Samkvæmt veiðitölum úr Veiðikortakerfinu, sem sett var á laggirnar árið 1995, hefur lundaveiði dregist saman um rúmlega 90%. Til samanburðar voru veiddir 232.936 lundar árið 1996 af 837 veiðimönnum, en árið 2024 voru einungis veiddir 20.171 lundar af 127 veiðimönnum*.
Á Fuglavef Menntamálastofnunar er stofnstærð lunda við Ísland metin um 2.000.000 varppör, sem jafngildir um 7.000.000 fuglum að hausti. Miðað við þessar tölur er árlegt veiðiálag um 0,3%.
SKOTVÍS hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum um stofnstærð lunda við Ísland og þróun hennar frá árinu 1995, án árangurs. Opinberar stofnanir segja að rannsóknaraðilar sem fá styrk frá Veiðikortasjóði neiti að veita slíkar upplýsingar. Af þessum sökum er erfitt að eiga upplýsta umræðu um til hvaða aðgerða skuli grípa til.
Ljóst er að lundastofninum við Ísland hefur hrakað aðallega sunnan og vestanlands, einkum vegna loftslagsbreytinga og hlýsjávarskeiðs Norður-Atlantshafs sveiflu (NAO). Nú eru vísbendingar um að NAO sé að ganga inn í kaldsjávarskeið, sem gæti verið lundanum hagstætt. Ef sú verður raunin ætti núverandi veiði að vera vel innan viðunandi marka.
Ef loftslagsbreytingar eru hins vegar meginorsök hnignunar stofnsins, mun frekari samdráttur í veiðum—umfram þau rúmlega 90% sem þegar hafa átt sér stað—alls ekki duga til að bjarga stofninum.
Það má líka benda á það að lundi er fæða með mjög lágt kolefnisfótspor líkt og önnur villibráð - þannig að nýting hans vinnur gegn loftslagsbreytingum.“
Mbl.is birti í dag viðtal við Erp Snæ sem vinnur að vöktun lundans. Hann segir þar meðal annars. „Á meðan þessar veiðar eru ósjálfbærar eru þær allar að til að minnka stofninn.“
Vissulega er erfitt að meta hvort veiðar eru sjálfbærar eða ekki ef grunnupplýsingum er haldið leyndum, segja veiðimenn. Að sama skapi furðar formaður SKOTVÍS sig á ummælum Erps um óbreyttar veiðar eins og þær hafi verið undanfarin áratug vinni mjög sterkt gegn stofnvextinum. SKOTVÍS bendir á í sinni yfirlýsingu að veiðar hafi dregist saman um 90% og veiðiálag sé ekki nema 0,3%.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |