Sífellt fleiri stíga fram og gagnrýna lundarannsóknir og þau veiðibönn sem byggja á þeim. Nú síðast steig Eyjamaðurinn, úteyjaskegginn og Elliðaeyingurinn Ragnar Þór Jóhannsson fram og skrifaði opið bréf til bæjarráðsmanna í Vestmannaeyjum. Ragnar er oftast kallaður Raggi togari.
Ekki er langt síðan að Erpur Snær Hansen sem er leiðtogi í lundarannsóknum og hefur verið til margra ára fékk á sig harkalega gagnrýni og var sakaður af Skotveiðifélagi Íslands um að neita að birta tölur yfir stofnstærð lunda. Sporðaköst leituðu til Erps og báðu um svar við þessari lykilspurningu. Hvers stór er lundastofninn? Erpur ætlar að taka þetta saman og fara yfir sín göng. Sporðaköst bíða svars.
Raggi togari segir í opna bréfinu:
„Ég hef dvalið í Elliðaey í yfir 35 ár og fylgst náði með lundastofninum á hverju ár. Sú þróun sem ég hef orðið vitni síðustu sjö árin – og sérstaklega síðustu fimm – bendir sterklega til þess að stofninn sé að ná sér vel á strik eftir makrílinn. Lundi er nú í magni sem jafnast á við áð besta sem sést hefur hér í Eyjum í langan tíma, og þetta er einnig það sem heyrist frá öðrum úteyjabúum, trillukörlum og sjómönnum – þeim sem vinna daglega með náttúrunni og veiðum,“ skrifar Ragnar Þór í bréfinu sem hann birti á Facebook-síðu sinni.
Hann heldur áfram: „Ég var sjálfur unnið á sjó í uppsjávarveiðum og upplifði makrílinn koma með breytta fæðukeðju og þá var greinlega hann sem var valdur af því að lundin kom ekki upp pysju því makríll hreinsaði upp allt sandsíli enn þegar hann fór að minka og hvarf héðan Þá varð strax sýnilegt hversu mikið magn sandsílis var að koma inn á miðin aftur – sandsíli sem er ein meginfæða lundi. Það sást fljótt á fjölda pysja og almennri viðkomu fuglsins.
Það er því með undrun sem ég les greinar frá fræðimönnum sem enn halda fram að stofninn sé í hættu. Ég efast ekki um að vísindaleg gögn skipti máli – en við megum ekki vanmeta reynslu þeirra sem lifa og starfa í þessum aðstæðum ár eftir ár. Náttúran sveiflast – það hafa alltaf komið erfið ár í lundaveiði, eins og heimildir síðustu 200 ára sýna. En það er ekki endilega vísbending um langtímahnignun, heldur hluti af hringrás náttúrunnar.
Við megum ekki gleyma því að fuglaveiðar, og þá sérstaklega lundaveiði, eru rótgróinn hluti af menningu og sögu Vestmannaeyja. Úteyjamenningin hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár og það er mikilvægt að við varðveitum hana – ekki aðeins vegna hefða heldur einnig sem lifandi þátt í samfélagi okkar.
Ég vil því hvetja bæjarráð til að endurskoða núverandi afstöðu og hefja undirbúning að því að auka veiðidaga, þó í litlum og skynsömum skrefum. Við getum vel farið að með gát og samtímis virkt fylgst með þróun stofnsins – en það þarf ekki að útiloka að við berum virðingu fyrir hefðinni og aðstæðum samtímis.“
Viðbrögð hafa ekki látið á sér standa. Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs var fljótur að lyklaborðinu og segir:
„Eftir því sem ég best veit er Umhverfis– og skipulagsráð búið að kalla eftir umsögnum Náttúrustofu Suðurlands og Bjargveiðifélags Vestmannaeyja varðandi lundaveiði á árinu 2025. Þær umsagnir liggja til grundvallar ákvörðun um fjölda daga o.s.frv.“
Davíð Guðmundsson leggur orð í belg: „Ég hef stundað lundaveiði í Suðurey í tæpa hálfa öld og hef aldrei sé jafn mikið af lunda og síðustu tvö ár.“
Komið hefur fram að lundaveiði hefur dregist mjög mikið saman og er í dag aðeins brot af því sem var í byrjun aldar.
Þær talningar og rannsóknir sem nú eru gerðar hljóta að geta metið hver stofnstærðin er og upplýst það. Væntanlega eru lundarannsóknir ekki eingöngu opinberar þegar lundanum fækkar. Það hlýtur að vera fagnaðarefni þegar stofninn stækkar. Hvort sem það er á landsvísu eða staðbundið, nú eða bæði. Gaman verður að sjá töluna sem Erpur ætlar að opinbera fyrir Sporðaköst.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
105 cm | Laxá í Aðaldal | Ásgeir Steingrímsson | 9. ágúst 9.8. |
101 cm | Stóra Laxá | Birta Ósk Svansdóttir | 31. júlí 31.7. |
100 cm | Straumfjarðará | Bruno Muller | 22. júlí 22.7. |
100 cm | Miðfjarðará | Christopher Hill | 19. júlí 19.7. |
100 cm | Miðsvæðið Laxá í Aðaldal | Helgi Jóhannesson | 15. júlí 15.7. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 7. júlí 7.7. |
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |