Starir ehf, sem er leigutaki nokkurra laxveiðiáa á Íslandi hefur samið við jörðina Auðsholt í Ölfusi um leigu á veiðirétti fyrir landi jarðarinnar. Með þessu er tryggt að netaveiðiréttur sem jörðin á, verður ekki nýttur í sumar, þess í stað verður stunduð þar stangveiði.
Um er að ræða tvær jarðir sem skipta með sér veiðiréttinum. Það er Auðsholt og Auðsholtshjáleiga. Hefur skiptingin verið þannig að hjáleigan hefur haft 25% af veiðirétti en sjálft Auðsholt átt 75%.
Pétur Bjarnason og Ágústa Björnsdóttir keyptu Auðsholt fyrir tveimur árum og hafa ekki nýtt netaveiðiréttinn. Vilja þau stuðla að því að styrkja laxastofninn á svæðinu og hafa því ekki sett út net í Ölfusá. Hjáleigan hefur hins vegar stundað netaveiði og það með góðum árangri. Nú hefur hjáleigan veitt í net í tvær vikur og þar með nýtt sinn rétt að fullu, að því er heimildamenn Sporðakasta fullyrða. Nú eru netin komin á þurrt og munu Starir selja stangveiðileyfi á svæðinu í sumar.
Samkvæmt því sem Sporðaköst komast næst er ekki sátt í málinu meðal landeigenda og Auðsholtshjáleiga telur sig geta nýtt frekari netarétt. Veiðivarsla verður á svæðinu enda markmiðið að netin hafi verið tekin upp í sumar fyrir landi Auðsholts í Ölfusi. Eftir því sem næst verður komist mun réttur hjáleigunnar til netaveiði virkjast í stuttan tíma í lok ágúst að nýju en þá ættu laxagöngur að vera komnar upp Ölfusá og á leið í Sogið og Stóru–Laxá og önnur heimkynni sín á svæðinu.
Netaveiðar í Ölfusá og Hvítá eru mikið hitamál. Efra Auðsholt leggur enn sín net í námunda við Iðu og Stóru–Laxá.
Enn er veitt í net í Kaldaðarnesi þar sem formaður Veiðifélags Árnesinga, Jörundur Gauksson ræður ríkjum. Ef fram fer sem horfir verða það einungis Auðsholtshjáleiga, með sinn takmarkaða netarétt og Kaldaðarnes þar sem formaðurinn býr sem stunda netaveiði í Ölfusá. Þykir mörgum skjóta skökku við að formaður félagsins stundi netaveiði þegar laxastofnar á svæðinu eiga undir högg að sækja.
„Þetta er sigur fyrir laxinn og það er mikilvægt að laxinn okkar eigi bandamenn eins og Auðsholtsfjölskylduna sem skilur stöðuna og er tilbúin til að stuðla að því að hann geti lifað. Netaveiðar á laxi í ferskvatni eru tímaskekkja,“ sagði Ingólfur Ásgeirsson, eigandi Stara í samtali við Sporðaköst.
Netalagnir Auðsholtshjáleigunnar tóku á bilinu 100 til 200 laxa fyrstu tvær vikur júlímánaðar. það staðfesta myndir sem teknar voru með drónum. Til samanburðar má geta þess að það er sambærilegt magn og veiddist í öllu Soginu í fyrra. Tölur um stangveiðina þar eru aðeins á reiki því nokkrir aðilar leigja veiðiréttinn en líkast til var heildarveiðina einmitt á bilinu 100 til 200 laxar.
Deilur milli netabænda og veiðimanna eru einnig til staðar í Hvítá, en Auðsholt þar efra stundar netaveiði og geysa þar harðar deilur. Þá er Iðudeilan eitthvað sem ekki hefur framhjá neinum sem áhuga hefur á veiðiskap. Þar tekst Finnur Harðarson, leigutaki á Stóru–Laxá á við landeigendur Iðu 1 og Iðu 2. Nýtt ósamat á Stóru–Laxá hefur verið kynnt en áfram er hart tekist á og það jafnvel svo að komið hefur til handalögmála.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Stóra Laxá | Birta Ósk Svansdóttir | 31. júlí 31.7. |
100 cm | Straumfjarðará | Bruno Muller | 22. júlí 22.7. |
100 cm | Miðfjarðará | Christopher Hill | 19. júlí 19.7. |
100 cm | Miðsvæðið Laxá í Aðaldal | Helgi Jóhannesson | 15. júlí 15.7. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 7. júlí 7.7. |
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |