RÉTTARHÖLD hófust í gær yfir alls sextíu og sex meintum barnaníðingum í borginni Angers í Frakklandi en um er að ræða umfangsmesta dómsmál í sögu Frakklands.

RÉTTARHÖLD hófust í gær yfir alls sextíu og sex meintum barnaníðingum í borginni Angers í Frakklandi en um er að ræða umfangsmesta dómsmál í sögu Frakklands. Eru sakborningar sakaðir um að hafa nauðgað börnum sem "seld" höfðu verið af foreldrum sínum, gjarnan fyrir lágar fjárhæðir og vindlinga.

Meint fórnarlömb í málinu eru fjörutíu, hið elsta var fjórtán ára þegar brotin eiga að hafa átt sér stað en það yngsta aðeins sex mánaða. Talið er líklegt að réttarhöldin standi í fjóra mánuði hið minnsta og gætu þrír sakborninga átt yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi ef þeir verða fundnir sekir.

Ákæruskjalið á hendur sakborningunum - 39 körlum og 27 konum - þykir hroðalegt yfirlestrar en saksóknarar hafa safnað saman sönnunargögnum sem sögð eru sýna að foreldrar fórnarlambanna hafi gjarnan "selt" börn sín til hringsins fyrir lágar fjárhæðir, matarpakka eða karton af sígarettum. Er því haldið fram að einu fórnarlambanna, lítilli stúlku, hafi verið nauðgað af meira en þrjátíu fullorðnum.

Allir koma sakborningar úr lægstu stigum samfélagsins, þ.e. búa við fátækt - flestir lifa reyndar af bótum frá hinu opinbera - og hafa litla menntun hlotið. Bjuggu þeir í Saint-Leonard-hverfinu í Angers, sem er lítill bær vestarlega í Frakklandi. Lögreglan mun hafa komist á snoðir um barnaníðingahring þennan er farið var að fylgjast með Eric nokkrum Joubert sem sleppt var úr fangelsi 1999 eftir að hafa afplánað dóm fyrir kynferðisbrot á barni. Er Joubert talinn hafa stofnað hringinn ásamt öðrum manni, Franck Vergondy, en flest brotanna eru sögð hafa verið framin í íbúð þess síðarnefnda. Fullyrt er að á þriggja ára tímabili, 1999 til 2002, hafi næstum 50 börnum verið nauðgað eða þau sætt annars konar misþyrmingum.

Angers. AFP.

Angers. AFP.

Höf.: Angers. AFP