Sumir voru svo reiðir að þeir gleymdu að kynna sig og veltu vatnskönnunni um koll í ræðustólnum. Fengu hinir reiðu ræðumenn góðar undirtekir og hávært lófaklapp og oftar en einu sinni heyrðist úti í þingsal "heyr, heyr".

Skömmu eftir að flokksþingi Framsóknarflokksins lauk um síðustu helgi fóru að heyrast raddir um að flokkurinn hefði sett á svið leikrit um Evrópusambandsaðild til að fela innanflokksátök og deilur um menn og málefni. Að sjálfsögðu léði stjórnarandstaðan máls á þessu en raddirnar bárust mér úr fleiri áttum, frá framsóknarmönnum sjálfum og fólki út í bæ sem fylgdist með fréttum af flokksþinginu. "Þið fjölmiðlamenn létuð gabba ykkur," sagði ein ágæt og beinskeytt kona við mig, sem ég hef ávallt tekið mark á í gegnum tíðina. Ég fór að hugsa um þessa gagnrýni konunnar enda tók ég hana til mín að hluta þar sem ég hafði flutt fréttir af flokksþinginu frá almennum umræðum á laugardagsmorgninum og rætt símleiðis við formanninn, Halldór Ásgrímsson, að þingi loknu. Halldór bar sig vel, sagði flokksþingið hafa farið mjög vel fram og flokkurinn væri sterkari á eftir. Sagði hann hina varlega orðuðu ályktun um "hugsanlegan undirbúning" Evrópusambandsviðræðna marka tímamót í sögu flokksins en gerði ekki mikið úr þeim deilum sem höfðu sannarlega verið uppi. "Þetta var nú orðum aukið," sagði hann með stóískri ró um þau ummæli framsóknarmanns í Kópavogi á þinginu að þar væri ólga og eldar loguðu. Það er nú einhvern veginn þannig með hann Halldór að afskaplega erfitt er að þjarma að honum. Kollegar mínir í fjölmiðlastétt fengu líka að reyna það eftir flokksþingið. Sama var hvað þeir reyndu, hvort sem það var í beinni útsendingu í sjónvarpi eða í blaðaviðtölum, að ekkert virtist slá Halldór út af laginu. Sennilega er það sambland af hans pollrólega persónuleika, staðfestu og áratugalangri reynslu í pólitík sem gerir hann svona erfiðan viðureignar. Svo nær hann oft að slá á léttari strengi undir lok lengri sjónvarpsviðtala. Þetta hefur hann gert svo lengi sem ég man. Eftir situr í minningu áhorfenda breitt og vinalegt bros sem hann er reyndar alltof spar á.

En það er þetta með flokksþingið. Eftir því sem lengra hefur liðið á vikuna spyr ég mig oftar þeirrar spurningar hvort það geti virkilega verið svo að fjölmiðlarnir hafi verið plataðir. Ég fór á þingið að morgni laugardags og fylgdist með almennum umræðum. Þar stigu framsóknarmenn í pontu og fljótlega mátti heyra að þeir voru reiðir. Þeir voru m.a. reiðir yfir því að góðverk flokksins næðu ekki í gegn í opinberri umræðu vegna innbyrðisátaka og deilna í flokknum og framgöngu einstakra þingmanna og ráðherra. Þeir voru reiðir vegna Kópavogsfundanna og þeir voru einnig reiðir yfir því að hinn seiðandi magadans við setningarathöfnina hefði farið fyrir brjóstið á hneyksluðum framsóknarkonum. Sumir voru svo reiðir að þeir gleymdu að kynna sig og veltu vatnskönnunni um koll í ræðustólnum. Fengu hinir reiðu ræðumenn góðar undirtekir og hávært lófaklapp og oftar en einu sinni heyrðist úti í þingsal "heyr, heyr."

Það gæti hafa verið meðvitað hjá flokknum að hafa almennu umræðurnar þetta snemma dags á laugardegi. Engir fjölmiðlar voru mættir nema þessi eini blaðamaður Morgunblaðsins, sem reyndi að gera reiðinni skil í frétt af umræðunum. Ég var ekki á þinginu á sunnudeginum en af umfjöllun fjölmiðla þaðan virtist sem reiðu framsóknarmennirnir hefðu horfið eða farið snemma heim. Umræðan var farin að snúast eingöngu um aðild að Evrópusambandinu eða ekki aðild. Vissulega eru Evrópumálin mikilvæg og tíðindum sætir þegar stjórnarflokkur setur þau að nokkru leyti á dagskrá hjá sér. Þessi umræða hefur þó áður komið upp innan flokksins og áherslur formannsins í þeim efnum hafa verið kunnar. Hins vegar eru fréttir af óánægju flokksmanna og deilum ekki síður athyglisverðar og skiljanlegt að hinir spræku spunameistarar vilji draga athygli fjölmiðla frá þeim.

Ef til vill vorum við göbbuð eftir allt saman - og flokksmenn meðtaldir. Þá hefur spunameisturunum tekist vel upp og ástæða til að óska þeim til hamingju með það. Eða voru þetta bara eftirköst vansvefta flokksmanna eftir glaum og gleði næturinnar sem birtust mér þarna um morguninn?

Hvað sem því líður megum við blaðamenn ekki undir nokkrum kringumstæðum láta gabba okkur. Það er vont að láta gabba sig. Maður verður svekktur og sár. Ég er ekki að segja að tilfinningar mínar hafi orðið svo heitar eftir síðustu vinnuhelgi en engu að síður tókst ágætri vinkonu minni að koma verulegu róti á hugann.

Nú vill svo skemmtilega til að ég þekki ágætlega tvo af hinum meintu spunameisturum, vann með þeim um tíma og eru þeir hinir vænstu piltar. Þeir þekkja vel til starfa okkar blaðamanna og búa því yfir vitneskju um hvar styrkleikar okkar og veikleikar liggja. Ég trúi engu slæmu upp á þá og fannst á stundum ómaklega að þeim vegið í allri orrahríðinni í kringum Íraksmálið. En eftir flokksþingið hefur mér liðið hálfundarlega, álíka undarlega og mér leið eftir að hafa nýlega verið plataður í falinni myndavél. Það var slæm tilfinning, vægt til orða tekið.

Kannski þurfum við blaðamenn að fá spunameistara í okkar raðir og snúa þannig vörn í sókn. Best væri auðvitað að þeir sneru aftur til fyrri og skemmtilegri blaðamannsstarfa og aðstoðuðu okkur við að ljóstra upp um hið pólitíska plott sem ku daglega fara fram í reykmettuðum bakherbergjum. Við verðum þá ekki göbbuð á meðan, eða hvað?

Eftir Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is

Höf.: Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is