Tónlistarskólinn á Akureyri kynnir starfsemi sína á morgun, laugardaginn 5. mars, með fjölbreytilegum tónleikum í Ketilhúsinu. Dagskráin hefst kl. 11 og stendur til 16. Fyrsta klukkutímann leika blásara- og strengjasveitir og milli kl.

Tónlistarskólinn á Akureyri kynnir starfsemi sína á morgun, laugardaginn 5. mars, með fjölbreytilegum tónleikum í Ketilhúsinu. Dagskráin hefst kl. 11 og stendur til 16.

Fyrsta klukkutímann leika blásara- og strengjasveitir og milli kl. 12 og 13 spila nemendur úr alþýðutónlistardeild og harmonikkunemar. Klukkan 13-14.30 leika píanó-, strengja- og gítarnemendur.

Þorgerðartónleikar

Árlegir Þorgerðartónleikar skólans eru síðasti liðurinn á dagskránni í Ketilhúsinu. Þeir hefjast kl. 15 og koma þá fram efnilegustu nemendur skólans. Tónleikarnir eru haldnir til minningar um Þorgerði S. Eiríksdóttur, sem var í eina tíð einn af framsæknustu nemendum skólans en lést er hún var í framhaldsnámi í London.

Aðgangur er ókeypis á alla tónleikana í Ketilhúsinu en tekið er við frjálsum framlögum tónleikagesta. Þau framlög fara í svonefndan Þorgerðarsjóð sem styrkir efnilega nemendur skólans til framhaldsnáms.

Gloria eftir Vivaldi

Lokaviðburðurinn á degi tónlistarskólans eru svo miklir hátíðartónleikar kórs og hljómsveitar skólans í Akureyrarkirkju kl. 17. Með þeim koma fram einsöngvararnir Hulda Björk Garðarsdóttir, Sigríður Aðalsteinsdóttir og Michael Jón Clarke sem einnig mun stjórna flutningnum. Flutt verða Gloria eftir Vivaldi og Come Ye Sons of Art eftir Purcell.