Pálína Birna Guðvarðardóttir fæddist á Syðri-Brekkum í Skagafirði 20. desember 1921. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 26. febrúar síðastliðinn. Foreldrar Pálínu voru Guðvarður Guðmundsson bóndi, f. 11. júlí 1894, d. 25. desember 1972, og Margrét Anna Jónasdóttir húsfreyja, f. 15. desember 1888, d. 2. mars 1974. Systur Pálínu eru: 1) Ingunn, f. 19. ágúst 1924, d. 10. júlí 1990, gift Kristni Hlíðar Kristinssyni, f. 14. nóvember 1928, d. 20. febrúar 1977. 2) Kristín, f. 27. júlí 1926, gift Arnbirni Ásgrímssyni, f. 24. febrúar 1927.

Árið 1951 giftist Pálína Gunnari Dal, f. 4. júní 1923. Þau slitu samvistum. Synir þeirra eru: 1) Gunnar, f. 4. desember 1949. 2) Jónas Guðmundur, f. 22. febrúar 1952, kvæntur Magneu S. Jónsdóttur, f. 18. apríl 1951. Dætur þeirra eru: a) Birna Íris, f. 1973, gift Ólafi Frey Halldórssyni, f. 1973, sonur þeirra er Halldór Ísak, f. 1999. b) Margrét Hildur, f. 1980. 3) Guðvarður Björn, f. 5. maí 1957, kvæntur Stefaníu Ásu Ásgeirsdóttur, f. 24. ágúst 1958. Synir þeirra eru: a) Helgi, f. 1978, heitkona er Hrafnhildur Jóhannesdóttir, f. 1982, dóttir Hrafnhildar er Díana Dögg, f. 2001. b) Bjarki, f. 1986, dóttir hans og Kristínar Sigurðardóttur er Birna, f. 2004. c) Andri, f. 1989.

Pálína lauk námi frá Kvennaskólanum á Blönduósi og saumanámi í Reykjavík. Hún var kennari við Reykjaskóla í Hrútafirði 1944-1949 og saumakona við tískuhús í Kaupmannahöfn 1949-1951. Pálína bjó á Syðri-Brekkum um tíu ára skeið, en flutti þaðan í Kópavog. Hún starfaði alla tíð sem húsmóðir og saumakona. Síðustu árin dvaldi Pálína á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð.

Útför Pálínu verður gerð frá Kópavogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag kveðjum við tengdamóður okkar Pálínu Birnu Guðvarðardóttur, eða ömmu Dídí, eins og hún var alltaf kölluð á heimilum okkar.

Við minnumst hennar fyrir þá eiginleika að lifa lífi sínu öðrum til heilla.

Eftirfarandi línur úr ljóðinu Trú mín eftir tengdaföður okkar Gunnar Dal finnst okkur einkenna lífsferil hennar.

Sú þátttaka okkar

er illu að hafna,

að elska og bæta

og deilur að jafna.

Í verki sýna okkar virku ást,

og vinna honum sem aldrei brást.

Hún felst í að skapa

en ekki að eyða.

Hún er það að lífga

og neita að deyða.

Og hverju lífsgrasi hlúa að,

og heiminn gera að betri stað.

Að starfa svo alls staðar

upplausnin víki.

Að alls staðar samræmi

og stjórnun hans ríki,

á jörðu eins og á himni hans.

Það hlutverk stærsta er sérhvers manns.

Við þökkum þér amma Dídí fyrir þá hlýju og ástúð sem þú sýndir okkur og fjölskyldum okkar.

Megi ljós kærleikans fylgja þér.

Ása og Magnea.

Elsku amma Dídí. Þú varst frábær amma. Við áttum margar eftirminnilegar stundir hjá þér. Við munum geyma þær í hjörtum okkar.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Þínir ömmustrákar

Bjarki og Andri.

Elsku amma Dídí.

Það er komið að kveðjustund að sinni. Minningarnar streyma upp í hugann hver á fætur annarri. Ég man svo vel hvað mér leið vel með þér og hversu góð þú varst, sannkölluð draumaamma. Mér fannst svo gott að koma til þín í Birkihvamminn þar sem þú tókst alltaf á móti mér opnum örmum og vafðir mig ást og umhyggju. Við kúrðum saman í litla rúminu þínu þar sem þú last fyrir mig allar þær sögur sem ég vildi heyra, eldaðir grjónagraut á hvaða tíma sólarhrings sem var og áttir töfrafrysti sem galdraði á undraverðan hátt fram mikið magn af frostpinnum. Nú ert þú komin í ljósið elsku amma mín og ég veit að þér líður vel. Ég vil þakka fyrir allar yndislegu stundirnar okkar saman og allt sem þú gerðir fyrir mig. Minningin um bestu ömmu í heimi lifir með mér um alla framtíð. Ég elska þig endalaust.

Þín

Margrét Hildur.

Elsku amma Dídí.

Mig langar til að skrifa nokkur kveðjuorð til þín. Það sem kemur fyrst upp í hjartað þegar ég kveð þig er þakklæti. Þakklæti fyrir allt það sem þú gafst mér. Þær gjafir eru ekki metnar til fjár heldur eru þær metnar til fjársjóðar sálar minnar. Alla hlýjuna, alla umhyggjuna, alla þolinmæðina, alla ástina sem þú gafst mér mun ég varðveita í hjartanu mínu og gera mitt besta til að bera áfram til minna nánustu.

Þegar ég var barn var ég ákveðin í því að eiga heima í svona "mjúku húsi" eins og þú bjóst í, í Birkihvamminum. Ekki það að veggirnir hafi verið gerðir úr svampi heldur var tilfinningin að koma til þín svo "mjúk" og róandi. Alltaf var hægt að skríða undir sængina þína og plata þig til að koma að lesa og þolinmæði þín í lestrinum var óþrjótandi.

Sem barn og seinna sérvitur unglingur fékk ég heldur betur að njóta góðs af snilligáfu þinni, sem var saumaskapurinn. Ef ég bara varð að fá einhver ákveðin föt sem ekki voru til í búðunum, kom ég bara með mynd til þín, eða lýsti fötunum með orðum og stuttu síðar voru þau tilbúin, fullkomin, eins og klippt út úr höfði mínu.

Ég vildi óska þess að sonur minn og mitt ófædda barn hefðu fengið að kynnast þér og njóta þess að koma í þitt mjúka hús. En svona er víst lífsins gangur. Ég mun leitast við að bera áfram til barna minna hlýjuna, umhyggjuna, þolinmæðina og ástina sem þú barst til mín, þannig kynnast þau þér.

Ég kveð þig nú, elsku amma, en þau fræ sem þú sáðir í lífi mínu og hjarta halda áfram að vaxa og verða að fallegum blómum.

Birna Íris.

Við andlát Pálínu Guðvarðardóttur frá Syðri-Brekkum í Skagafirði leita á hugann sumrin góðu sem ég átti að Syðri-Brekkum sem unglingur. Pálína var elst af þremur systrum. Við vorum systkinabörn. Við áttum saman ógleymanlegar stundir við leik og vinnu. Þá var talið sjálfsagt, að unglingar gengju að þeim störfum, sem þeim hentaði, sem betur fer. Þetta voru dýrmæt þroska- og lærdómssumur. Pálína var mjög til fyrirmyndar í þeim efnum, afar iðin og samviskusöm, alltaf tilbúin að taka til hendi.

Eftir nám við Húsmæðraskólann á Blönduósi hélt Pálína til Reykjavíkur til framhaldsnáms í saumaskap. Að því loknu var hún í nokkur ár hannyrðakennari við Héraðsskólann á Reykjum í Hrútafirði. Á Reykjaskóla kynntist Pálína eiginmanni sínum, Halldóri Sigurðssyni. Þau fluttu til Kaupmannahafnar þar sem Halldór stundaði nám en Pálína vann við saumaskap á Tískuhúsi Illums. Eftir heimkomu fluttist Pálína heim að Syðri-Brekkum þar sem hún sinnti í nokkur ár búskapnum fyrir aldna foreldra sína. Pálína og Halldór eignuðust þrjá syni, sem hún helgaði sitt líf og ól upp af miklum myndarskap og kom til náms, lengst af sem einstæð móðir. Hún vann fyrir sér og sínum sonum með saumaskap og var mjög eftirsótt til þeirra starfa. Pálína taldi aldrei neitt eftir sér. Hún gekk að því, sem gera þurfti.

Pálína átti síðustu árin við erfiðan sjúkdóm að stríða. Eflaust var hún hvíldinni fegin.

Með þessum fátæklegu orðum vil ég þakka Pálínu okkar góðu kynni. Við Edda vottum sonum Pálínu og fjölskyldum samúð.

Steingrímur Hermannsson.