Þingmenn fylgjast með umræðum í þingsalnum.
Þingmenn fylgjast með umræðum í þingsalnum. — Morgunblaðið/Golli
FRAM kom í máli Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, í umræðum á Alþingi í gær að hún væri "nokkuð hissa", eins og hún orðaði það, á yfirlýsingum Davíðs Oddssonar, utanríkisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, um...

FRAM kom í máli Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, í umræðum á Alþingi í gær að hún væri "nokkuð hissa", eins og hún orðaði það, á yfirlýsingum Davíðs Oddssonar, utanríkisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, um ályktun flokksþings framsóknarmanna í Evrópumálum. Sagði hún Davíð túlka niðurstöðu flokksþingsins algjörlega á skjön við Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins. "Er verið að undirbúa eitthvert nýtt stjórnarsamstarf á milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna eða hvað er hér á ferðinni?" spurði hún meðal annars.

Siv sagði, er hún hóf að ræða þessi mál á Alþingi í gær, að hún væri sammála þeim orðum Halldórs Ásgrímssonar að ályktun flokksþingsins um Evrópumál væri tímamót í flokknum. "Við sem höfum fylgst með starfi flokksins í gegnum árin, og vorum meðal annars viðstödd þegar við tókumst á inni í flokknum á flokksþingi um aðkomuna að EES, sjáum og skynjum hversu mikil tímamót þetta eru. Það er allt annað andrúmsloft í Framsóknarflokknum gagnvart Evrópusambandinu en var. Þó að við séum ekki tilbúin til að segja að við viljum ganga þar inn erum við tilbúin til að segja að við viljum skoða samningsmarkmið okkar og undirbúa aðild, samanber orðalagið "hugsanlegur undirbúningur aðildar" eins og varð ofan á á flokksþinginu okkar."

Siv sagði að Davíð Oddsson hefði á hinn bóginn gengið fram á völlinn og talað á allt öðrum nótum. Hann hefði haldið því fram að ályktunin fæli í sér engin tímamót. "Ég verð að segja eins og er að maður hefur auðvitað fylgst með foringjum flokkanna eftir 15. september þegar stólaskipti urðu. Það hefur gengið afskaplega vel, menn hafa verið að fóta sig í nýjum hlutverkum, en eitthvað hefur nýr tónn skyndilega skapast þar sem fyrrverandi forsætisráðherra, hæstvirtur utanríkisráðherra, túlkar núna niðurstöður flokksþings Framsóknarflokksins algjörlega á skjön við hæstvirtan forsætisráðherra. Það þykir mér mjög merkilegt. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvaða skilaboð eru þetta? Er verið að skammast yfir Evrópuályktuninni, að hún sé of jákvæð? Er verið að skammast eitthvað yfir því? Eða yfir ræðum hæstvirts forsætisráðherra? Er verið að undirbúa eitthvert nýtt stjórnarsamstarf á milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna eða hvað er hér á ferðinni?"

Eldheitar ástarjátningar

Eftir ræðu Sivjar sagði Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingar, að Íslendingar ættu að stefna að Evrópuaðild. Hann sagði jafnframt að töluverð tímamót fælust í Evrópuályktun framsóknarmanna. "Túlki svo hver sem túlka vill hversu stórt skrefið var en ég tel að þar hafi opnast nýir fletir á samstöðu íslenskra stjórnmálaflokka hvað varðar þetta mál þegar tveir af meginflokkunum eru komnir með það á stefnuskrá sína, reyndar í mismiklum mæli."

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, kom næstur í pontu og sagði að aðrar eins ástarjátningar, eldheitar ástarjátningar, á sameiginlegri stefnu Samfylkingar og Framsóknarflokksins í Evrópumálum hefði hann ekki heyrt í langan tíma. "Ég held að mörgum félagslega þenkjandi framsóknarmanni hljóti að hafa brugðið við þessa umræðu; á flokksþinginu sjálfu og núna hér í þingsal." Hann sagði þó gott að framsóknarmenn skyldu koma út úr skápnum og segja hvað fyrir þeim vakti.