Ralf Schumacher á Toyota-bíl sínum í Tókýó um síðustu helgi. Hann telur möguleika bróður síns á titli ökuþóra í ár ekki mikla.
Ralf Schumacher á Toyota-bíl sínum í Tókýó um síðustu helgi. Hann telur möguleika bróður síns á titli ökuþóra í ár ekki mikla. — Reuters
RALF Schumacher hjá Toyota kveðst sannfærður um að sigurganga bróður hans Michaels hjá Ferrari sé á enda og að hann verði ekki heimsmeistari ökuþóra í ár. Lét hann svo um mælt í tveimur viðtölum á dögunum.

RALF Schumacher hjá Toyota kveðst sannfærður um að sigurganga bróður hans Michaels hjá Ferrari sé á enda og að hann verði ekki heimsmeistari ökuþóra í ár. Lét hann svo um mælt í tveimur viðtölum á dögunum.

Ferrrariþórinn hefur unnið titilinn undanfarin fimm ár í röð og sjö sinnum alls. Og að mati Ralfs verða þeir ekki fleiri. Toyotaþórinn dregur þessa ályktun af gengi manna við tilraunaakstur undanfarnar vikur en á tímaseðlum úr þeim lotum voru bílar McLaren og Renault oftast efstir á blaði.

"Miðað við gang mála myndi maður segja að Ferraribíllinn sé ekki lengur það sem menn miða við. Það gæti svo sem átt eftir að breytast en sem stendur virðast Renault og McLaren vera viðmiðunin. Ég held að vertíðin eigi eftir að vera Ferrari erfið. Ég efast um að liðið vinni 15 mót af 19," sagði Ralf.

Varðandi möguleika eigin liðs er Ralf ekki jafnbjartsýnn og fyrr í vetur. Allt þar til í síðustu viku staðhæfði hann að Toyota myndi vinna Williams og BAR, en nú segir hann að "frábært" yrði að ná pallsæti öðru hverju. "Það gæti verið raunhæft fyrir okkur að miða að því að komast á verðlaunapall. Við verðum að bíða og sjá hvernig vertíðin æxlast.

Á undanförnum árum hefur Ferrari verið ráðandi á pallinum og hin liðin tiltölulega veik og óstöðug að getu. Í ár verða Renault, McLaren og Ferrari tiltölulega öflug svo það verður á brattann að sækja hjá okkur á tímabilinu. Ég vona að við náum öðru hverju á pall frá og með miðri vertíð og gangi það eftir verður það að teljast gott," segir Ralf.

Til að það megi rætast verður TF105-bíll Toyota og mótorinn að endast vel. "Ég mun hlusta vel eftir mótornum því hann verður að endast tvö mót. Aðalmálið fyrir mig er að klára tvö fyrstu mótin alla leið á mark. Takist það er ég viss um að við eigum eftir að safna góðum stigum," segir Ralf.