McLaren mun hafa mikið gagn af þriðja bílnum á föstudagsæfingum mótshelganna.
McLaren mun hafa mikið gagn af þriðja bílnum á föstudagsæfingum mótshelganna. — Reuters
MCLAREN-liðið hefur afráðið að notfæra sér þann rétt að tefla fram þriðja bílnum á keppnishelgum komandi vertíðar. Það getur liðið í krafti þess að hafna í fimmta sæti í keppni bílasmiða á vertíðinni 2004.

MCLAREN-liðið hefur afráðið að notfæra sér þann rétt að tefla fram þriðja bílnum á keppnishelgum komandi vertíðar. Það getur liðið í krafti þess að hafna í fimmta sæti í keppni bílasmiða á vertíðinni 2004.

Miklar efasemdir hafa verið um að McLaren myndi notfæra sér réttinn en öll lið sem hafna aftar en í fjórða sæti í keppni bílsmiða mega nota þriðja bílinn á frjálsu föstudagsæfingunum á keppnishelgum.

Talið var að toppliðið fyrrverandi myndi ekki nota réttinn en nú mun það gert enda talið að liðið muni fyrir vikið standa betur að vígi á mótum.

Eina sem ekki hefur verið ákveðið er hvor þeirra Alexander Wurz eða Pedro de la Rosa muni sinna akstrinum en báðir uppfylla skilyrði sem um hann gilda.

"Það er augljós ávinningur af akstri þriðja bílsins þar sem hann getur sinnt samanburðarprófunum á dekkjum og bíluppsetningum án þess að þurfa að hafa áhyggjur af mótornotkun," segir Martin Whitmarsh liðsstjóri.

Fyrir vikið er hægt að spara keppnisbílinn mun meira en toppliðin fjögur geta gert. "Bílfræðingarnir fá óskir sínar uppfylltar með þriðja bílnum en þeir vilja venjulega keyra bíla sem allra mest til að eyða öllum efasemdum um tilteknar uppsetningar.

Mótorfræðingarnir fá mun betra tækifæri til að fínstilla mótora keppnisbílanna og hægt verður að þaulnýta dekk sem þriðji bíllinn hefur til ráðstöfunar til að meta hvaða dekk væri skynsamlegast að nota í keppninni. Þá mun reyndur ökuþór sinna akstrinum, einhver sem verið hefur hluti af þróunarsveit okkar, en það er mögulegt að Pedro og Alex skiptist á að sinna akstrinum," sagði Whitmarsh.