Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Ekki er að því að spyrja að stundum eignast menn óvænta félaga í pólitík. Steinar Harðarson, einn af frambjóðendum Vinstri grænna í síðustu þingkosningum, má vart vatni halda yfir málflutningi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í borgarmálum.

Ekki er að því að spyrja að stundum eignast menn óvænta félaga í pólitík. Steinar Harðarson, einn af frambjóðendum Vinstri grænna í síðustu þingkosningum, má vart vatni halda yfir málflutningi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í borgarmálum.

Steinar skrifar í Morgunpóst VG: "Ég horfði á umræðuþáttinn Ísland í dag eftir fréttir á Stöð 2 föstudaginn 25. febrúar. Gestir voru m.a. Katrín Jakobsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Umræðuefnið var m.a. lóðaverð í Reykjavík. Það er hörmulegt að upplifa það að vera sammála stuttbuxnafulltrúa Sjálfstæðisflokksins í málinu en algjörlega ósammála okkar annars góða varaformanni Katrínu Jakobsdóttur um úthlutun byggingarlóða í Reykjavík. Það var líka áberandi hve spyrlarnir í þættinum voru þrumu lostnir yfir málflutningi okkar fulltrúa enda voru röksemdir Katrínar í málinu eins og talaðar út úr munni frjálshyggjumanns meðan Guðlaugur Þór talaði eins og málsvari almennings."

Steinar heldur áfram: "Það kæmi ekki á óvart þótt uppboðsaðferðin væri runnin undan rifjum þáverandi borgarstjóra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Hún hefur löngum verið höll undir frjálshyggju og markaðslögmál. Það hefur enda valdið mér miklum vonbrigðum að ekki skuli hafa verið fallið frá þessu skelfilega fyrirkomulagi eftir að við Vinstri græn urðum hluti R-listans."

Steinar skrifar líka: "Rökin sem færð hafa verið fyrir uppboði lóða eru m.a. þau að um "takmarkaða auðlind" sé að ræða, eftirspurn sé meiri en framboð. Eru það boðleg rök af hálfu félagshyggjuflokks? Erum við í VG farin að tileinka okkur hugmyndafræði og röksemdir frjálshyggjunnar? Er það boðlegt að "félagshyggjustjórn" R-listans í Reykjavík beiti sér fyrir því að húsnæðiskaupendur í borginni greiði fleiri milljónir aukalega fyrir íbúðarhúsnæði, milljónir umfram þann kostnað sem borgin þarf að bera til þess að gera lóðir byggingarhæfar... Er það boðlegt að borgin hafi þessa grunnþörf íbúanna að féþúfu? Hvar er hin sósíalíska hugsjón Vinstri grænna?"

Er hún kannski hjá Guðlaugi Þór?