VERIÐ er að kanna hvort lögfræðingur skákmeistarans Bobbys Fischers fær að færa honum íslenskt vegabréf, að því er Sæmundur Pálsson, vinur og stuðningsmaður Fischers, sem staddur er í Tókýó, sagði í samtali í gær. Guðmundur G. Þórarinsson, Einar S.

VERIÐ er að kanna hvort lögfræðingur skákmeistarans Bobbys Fischers fær að færa honum íslenskt vegabréf, að því er Sæmundur Pálsson, vinur og stuðningsmaður Fischers, sem staddur er í Tókýó, sagði í samtali í gær.

Guðmundur G. Þórarinsson, Einar S. Einarsson og Garðar Sverrisson, stuðningsmenn Fischers, komu í gær til Tókýó þar sem Sæmundur tók á móti þeim. Þeir fóru yfir stöðu mála. "Það hefur ekkert breyst. Fischer er ennþá í einangrun og við fáum ekki að heimsækja hann. Við ætlum að reyna að fara fram á að það verði leyfð heimsókn til hans," sagði Sæmundur.

Stuðningsmenn Fischers unnu að því í gær að undirbúa blaðamannafund sem haldinn verður á hóteli í Tókýó í dag. "Svo verðum við með blaðamannafund klukkan 13:30 að okkar tíma á morgun," sagði Sæmundur í gær og bætti því við að þar myndu stuðningsmenn Fischers kynna málið og útskýra "á hvaða forsendum við séum komnir alla þessa leið". Sæmundur sagði að John Bosnitch, stuðningsmaður Fischers í Japan, byggist við um þrjátíu til fjörutíu blaðamönnum víðsvegar að á fundinn.

Býst við svari í dag

Sæmundur sagði að stuðningsmenn Fischers hefðu aftur haft samband við Þórð Ægi Óskarsson, sendiherra Íslands í Japan. Hefðu þeir beðið hann að kanna hvort ekki væri hægt að láta lögfræðing Fischers hafa vegabréfið til þess að færa honum. Sæmundur benti á að Fischer væri ekki í fangelsi heldur í innflytjendabúðum og það væri ekkert óeðlilegt við að mönnum sem væru í haldi í slíkum búðum væru afhent vegabréf.

"Við ætlum að fara fram á að lögfræðingi Fischers verði afhent vegabréfið og að annaðhvort hún eða við saman afhendum það," sagði Sæmundur. Hann sagði að svar ætti að fást hjá sendiherranum klukkan níu í morgun að japönskum tíma. "Þá ætlaði hann að láta okkur vita hvort hann hefði einhverjar frekari fréttir," sagði Sæmundur.