"Þegar maður missir einhvern sem maður hefur elskað alla sína ævi, fyrirvaralaust, verður maður ekkja. Eini munurinn er að þegar um skilnað er að ræða er líkið sprelllifandi um allan bæ að reyna við smástelpur, eins og Ástríður Jóna orðar það sjálf," segir Edda Björgvinsdóttir um einleikinn Alveg brilljant skilnaður sem verður frumsýndur í kvöld.
"Þegar maður missir einhvern sem maður hefur elskað alla sína ævi, fyrirvaralaust, verður maður ekkja. Eini munurinn er að þegar um skilnað er að ræða er líkið sprelllifandi um allan bæ að reyna við smástelpur, eins og Ástríður Jóna orðar það sjálf," segir Edda Björgvinsdóttir um einleikinn Alveg brilljant skilnaður sem verður frumsýndur í kvöld. — Ljósmynd/Baldur Bragason
ALVEG brilljant skilnaður er heitið á einleiknum sem Edda Björgvinsdóttir leikkona frumsýnir á 3. hæðinni í Borgarleikhúsinu í kvöld.

ALVEG brilljant skilnaður er heitið á einleiknum sem Edda Björgvinsdóttir leikkona frumsýnir á 3. hæðinni í Borgarleikhúsinu í kvöld. Edda bregður sér þar í hlutverk Ástríðar Jónu, miðaldra Reykjavíkurdömu, sem greinir frá hlutskipti sínu og pælingum skömmu eftir að eiginmaður hennar til þrjátíu ára yfirgefur hana til að taka saman við yngri konu. "Já, þetta verk hefur nú fengið mig og okkur sem að því stöndum til að fá nokkur hlátursköst," segir Edda Björgvinsdóttir aðspurð hvort verkið, sem er eftir írska leikskáldið Geraldine Aron, sé skemmtilegt. "Í leiðinni þurfti maður nú líka að þurrka tár úr augunum," bætir hún við.

Hún segir verkið grátbroslegt, líkt og skilnaður sé yfirleitt - ferli sem snýst um að lifa tilfinningalega af mikla sorg með húmor fyrir sjálfum sér. Verkið dragi þannig upp mjög raunsanna mynd af því hvernig skilnaður geti leikið konur. "Þetta er svo samkvenlegt verk og það er dálítið merkilegt," segir hún. "Skilnaður getur auðvitað komið til á ýmsan hátt. Í þessu tilfelli lendir Ástríður Jóna í því að maðurinn hennar fer að halda framhjá með konu sem er tuttugu árum yngri og það er varla hægt að upplifa meiri höfnun. Samt fer alltaf visst sorgarferli í gang þótt ekki sé um að ræða svona alvarleg svik. Það þurfa allir að vinna heilmikla tilfinningavinnu til að komast gegnum skilnað," segir Edda og tekur sem dæmi að Ástríður Jóna líki sjálfri sér við ekkju í verkinu, í fyrstu til að fá meiri samúð, en síðan vegna þess að ástandið sé í raun ekkert svo ólíkt. "Þegar maður missir einhvern sem maður hefur elskað alla sína ævi, fyrirvaralaust, verður maður ekkja. Eini munurinn er að þegar um skilnað er að ræða er líkið sprelllifandi um allan bæ að reyna við smástelpur, eins og Ástríður Jóna orðar það sjálf."

Konur halda listalífinu uppi

Að mati Eddu er sýningin alls ekki bara fyrir konur, þótt hún sjái vissulega fyrir sér að hún geti hentað ýmsum kvennahópum á borð við saumaklúbba. "Því helmingur þeirra sem standa í skilnaði er yfirleitt karlmenn, og þeir lenda auðvitað í nákvæmlega sömu aðstöðu og konur. Tilfellið er hins vegar að konur halda uppi listalífinu í hinum vestræna heimi, ekki bara í leikhúsinu eða á Íslandi. Það er alltaf að stórum meirihluta konur sem fara í leikhús, sem sækja myndlistarsýningar og tónleika, og margbúið að rannsaka það," segir Edda.

Það er Þórhildur Þorleifsdóttir sem leikstýrir Eddu í Alveg brilljant skilnaði , en þetta er ekki í fyrsta sinn sem þær vinna saman að einleik á þennan hátt. Ásamt Maríu Sigurðardóttur settu þær upp einleikinn Leitin að vísbendingu um vitsmunalíf í alheiminum fyrir nokkrum misserum. "Það var að vísu öllu alvarlegri einleikur, sérkennilegur og skrítinn. Þessi er aðgengilegri og er lítið, sætt konuverk, sem getur þó náð inn í hjörtu allra manna líka," segir Edda.

Hún segir það vissulega krefjandi vinnu að takast á við einleik sem leikhúsform. "Og ég verð að segja að mér finnst hún rosalega einmanaleg," segir hún. ".En annars var ég búin að gleyma hvernig þetta er. Síðast hélt ég að ég myndi aldrei nenna að setja upp einleik aftur, og ég held það líka núna. Svo gleymi ég því kannski og dett í það aftur."