— Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BRESKI blaðamaðurinn Martin Bashir er næstum jafnfrægur og allt fræga fólkið, sem hann hefur rætt við í gegnum tíðina.

BRESKI blaðamaðurinn Martin Bashir er næstum jafnfrægur og allt fræga fólkið, sem hann hefur rætt við í gegnum tíðina. Vakti hann fyrst verulega athygli á sér með viðtali við Díönu prinsessu og bætti síðan um betur með heimildamynd um tónlistarmanninn Michael Jackson. Hún varð kveikjan að þeim réttarhöldum, sem nú standa yfir Jackson í Santa Maria í Kaliforníu. Þar situr nú Bashir sjálfur fyrir svörum sem vitni.

Segja má, að Bashir hafi orðið heimsfrægur á einni nóttu með viðtalinu við Díönu árið 1995 en í því dró hún ekkert undan, sagði frá baráttu sinni við lystarstol, framhjáhaldinu með James Hewitt og hjónabandserfiðleikunum, sem leiddu til skilnaðar þeirra Karls prins 1996. Lét hún þá þessi frægu orð falla: "Við vorum þrjú í þessu hjónabandi og þess vegna dálítið þröngt á þingi." Átti hún þá við samband mannsins síns við Camillu Parker Bowles.

Bashir vakti líka mikla athygli með viðtali sínu við bresku barnfóstruna Louise Woodward, sem sökuð var um að hafa orðið barni að bana í Bandaríkjunum, og síðan kom hvert viðtalið á fætur öðru. Ræddi hann meðal annars við fimm menn, sem voru sakaðir um að hafa orðið svörtum unglingspilti að bana; við Archer lávarð um hneykslismál hans; við bóndann Tony Martin, sem fór í fangelsi fyrir að drepa innbrotsþjóf, og við knattspyrnumanninn George Best.

Það var þó heimildamyndin um Jackson, sem kom Bashir endanlega á kortið. Þar má meðal annars sjá stórstjörnuna halda í hendurnar á drengnum, væntanlegum ákæranda sínum, og segja frá því, að hann sofi stundum í sama rúmi og börn. Vakti það hneykslun víða og varð til þess, að bandarískir saksóknarar ákærðu hann fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

Jackson hélt því fram, að Bashir hefði í raun falsað viðtalið við sig með því að klippa það til og sýndi því til sönnunar viðtalið allt, sem hans eigin aðstoðarmenn tóku upp á sama tíma.

Bashir reyndi hvað hann gat til að komast hjá því að bera vitni í málinu gegn Jackson en þegar hann neyddist til að setjast í vitnastúkuna síðastliðinn mánudag var hann heldur sagnafár. Svaraði hann ekki nema einni og einni spurningu verjendanna en viðurkenndi þó, að hann hefði þrisvar sinnum verið kærður til siðanefndar breskra blaðamanna og einu sinni verið sakfelldur. Varð þetta til þess, að verjendurnir kröfðust þess, að hann yrði dæmdur fyrir að óvirða réttinn og einnig, að ekki yrði leyft að nota heimildamyndina sem sönnunargagn.

Bashir átti ekki að koma fyrir réttinn sem vitni nema einu sinni en higsanlegt er, að hann verði kallaður fyrir aftur og þá sem vitni varnarinnar.

Santa Maria. AFP.

Santa Maria. AFP.

Höf.: Santa Maria. AFP