Aðstæður á vettvangi sprengingarinnar í Puxian kannaðar í gær.
Aðstæður á vettvangi sprengingarinnar í Puxian kannaðar í gær. — Reuters
TALIÐ er að allt að 20 manns, þar á meðal börn, hafi farist í gær í norðanverðu Kína þegar sprengiefni sem eigandi námaverksmiðju geymdi heima hjá sér sprakk í námunda við barnaskóla sl. miðvikudag.

TALIÐ er að allt að 20 manns, þar á meðal börn, hafi farist í gær í norðanverðu Kína þegar sprengiefni sem eigandi námaverksmiðju geymdi heima hjá sér sprakk í námunda við barnaskóla sl. miðvikudag. Fjölmiðlar í héraðinu greindu frá því að 20 börn, hið minnsta, hefðu farist.

Sprengingin varð í Huogou í Shanxi-héraði. Flokksleiðtoginn Cao sem stjórnar þorpinu sagði hins vegar í samtali við AFP að manntjónið hefði verið minna. "Síðustu staðfestu tölur eru 10 látnir, átta fullorðnir og tvö börn," sagði hann og bætti við að sjö manns að auki hefðu slasast. Var óljóst síðdegis í gær hvað olli þessu misræmi. Miklar skemmdir urðu á grunnskóla í grennd við slysstaðinn.

Blaðamaður hjá héraðsblaði sagði lögreglu hafa girt svæðið af og neitað fréttamönnum að nálgast skólann sem er mjög lítill, nemendur munu vera sautján eða átján. Sagðist blaðamaðurinn óttast að yfirvöld myndu reyna að þagga málið niður eftir mætti eins og gert var þegar sprenging varð nýverið í Peking, aðeins nokkrum dögum áður en þing Kína heldur árlegan fund sinn á morgun, laugardag. Algengt er að reynt sé að hindra fréttaflutning af mannskæðum slysum í Kína.

Shanxi er mesta kolanámuhérað Kína og eru námuslys þar tíð. Sprengiefnið var geymt á heimili námueigandans, Lus Maolins, en hann lést í slysinu.

Peking. AFP.

Peking. AFP.