Hugmynd að útliti nýrrar verslunar Ikea í Garðabæ.
Hugmynd að útliti nýrrar verslunar Ikea í Garðabæ.
BÆJARSTJÓRN Garðabæjar samþykkti í gærkvöldi samhljóða að auglýsa deiliskipulag fyrir verslunarkjarna sem mun tilheyra byggð á Urriðaholti, en þar mun m.a. Ikea reisa 20.000 fermetra verslun á tveimur hæðum.

BÆJARSTJÓRN Garðabæjar samþykkti í gærkvöldi samhljóða að auglýsa deiliskipulag fyrir verslunarkjarna sem mun tilheyra byggð á Urriðaholti, en þar mun m.a. Ikea reisa 20.000 fermetra verslun á tveimur hæðum. Einnig var samþykkt að auglýsa breytt aðalskipulag fyrir Urriðaholtið allt, en þar er ráðgert að reisa þekkingarsamfélag með háskóla og íbúðahverfi í kringum hann.

"Með þessu er verið að taka endanlegt skref í átt að því að Ikea flytji alla sína starfsemi í Garðabæ," segir Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri í Garðabæ. Íbúum og hagsmunaaðilum gefst nú tími til þess að kynna sér bæði aðal- og deiliskipulagstillögurnar og skila inn athugasemdum við þær áður en tekin verður endanleg afstaða til þeirra.

Ef allt gengur að óskum segir Ásdís að Ikea geti hafið framkvæmdir á árinu og opnað á nýja staðnum í ágúst 2006.

Með Ikea munu koma aðrar verslanir og þjónusta, og segir Ásdís að þessi uppbygging muni hafa mikil áhrif í bæjarfélaginu. Íbúarnir muni njóta aukinnar þjónustu og betri verslana, og bærinn fái umtalsverð gatnagerðargjöld og fasteignagjöld af svo stóru verkefni.

Uppbygging Urriðaholtsins er á áætlun, og verða hugmyndir að útfærslu háskólahlutans kynntar forsvarsmönnum Háskólans í Reykjavík 15. mars, en þá mun Reykjavíkurborg einnig kynna háskólanum hugmyndir sínar um háskóla í Vatnsmýrinni. Ásdís viðurkennir að það sé hörð samkeppni milli sveitarfélaganna um háskólann. "Háskólans vegna vona ég að bæði sveitarfélögin leggi sig fram um að bjóða spennandi valkost."