María Sigursteinsdóttir fæddist í Reykjavík 8. desember 1940. Hún lést á heimili sínu, Langholtsvegi 65, fimmtudaginn 24. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Bjarnhildur Þorláksdóttir, f. 1903, d. 1981, og Sigursteinn Guðmundur Þórðarson, f. 1905, d. 1964. Systkini Maríu eru Skafti, f. 1930, d. 1987, Sigursteinn, f. 1932, Rannveig, f. 1934, d. 1992, Þorlákur, f. 1935, d. 1985, Finnbogi, f. 1938, d. 1939, og Unnur, f. 1939, d. 2004.

Dóttir Maríu og Vilhjálms Helga Jónassonar, f. 13. apríl 1938, er Sveinhildur, f. 1960, maki Einar Jónsson. Dætur þeirra eru Þórunn María, f. 1990, og Valgerður Anna, f. 1992.

Hinn 21. desember 1974 giftist María Vilhjálmi Ásmundssyni múrarameistara, f. 22. ágúst 1940, d. 5. janúar 1991. Börn þeirra eru: 1) Hulda, f. 1971, maki Valgarður Bragason. Synir hennar eru Vilhjálmur, f. 1994, og Eiríkur Elí, f. 1997. 2) Ásmundur, f. 1975, maki Svanhildur Fjóla Jónasdóttir. Börn þeirra eru Maríanna Björk, f. 1996, Rebekka Sól, f. 1998, og Kristófer Máni, f. 2001.

María verður jarðsungin frá Áskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku mamma.

Mig langar í nokkrum línum að þakka þér fyrir einstaka samfylgd þína. Okkar samfylgd hefur verið ljúf og endurminningarnar streyma fram. Hvernig þú vildir halda utan um okkur börnin þín og barnabörn. Þú kenndir mér og leiðbeindir á þinn hógværa hátt. Vandvirkni þín og einstök lagni við alla hluti verður mér ævarandi leiðarljós. Heimili þitt ber vitni um smekkvísi þína og snyrtimennsku.

Nú í seinni tíð varstu enn meira farin að rækta hæfileika þína. Á síðasta ári varstu farin að taka ljósmyndir á litlar einnota myndavélar. Myndefnið var heimili þitt og nánasta umhverfi. Þú sýndir miklar framfarir í þessu áhugamáli þinu. Þessar myndir eru nú skemmtilegar heimildir um líf þitt. Þessi hæfileiki þinn var til staðar því á yngri árum tókstu mikið af myndum af mér sem ég kallaði "Ég og styttur bæjarins". Þá hafðir þú farið með mig í göngutúra um miðbæinn og tekið myndir af dóttur þinni á mörgum stöðum. Einnig varstu farin að teikna og mála myndir. Þessar myndir bera vott um skemmtilega sýn þína á lífið. Glaðlegar manneskjur, fuglar og blóm voru fyrirmyndir þínar. Myndin sem þú gafst okkur systkinunum um jólin lysir þér vel, þú lést ljósrita myndina svo við fengjum öll eins. Þú vildir ekki gera upp á milli okkar og þú ætlaðir sjálf að geyma frummyndina.

Litlu dagbækurnar þínar þar sem þú skrifaðir hugleiðingar þínar um lífið, settir litlar myndir í og ljóðin sem þú klipptir út úr Mogganum eru okkur kærar. Stundum sátum við í litla eldhúsinu þínu, ég las ljóð dagsins upp og við veltum okkur upp úr kveðskapnum. Oftar en ekki var kveðskapur eldri skáldanna þér hugleikinn. Þú varst einmitt stundum svo skemmtilega íhaldssöm. Þú vildir halda í gamlar hefðir, mat átti að bera fram klukkan sjö. Þér varð tíðrætt um hraða nútímans og minntir okkur á að reyna að njóta stundarinnar.

Lífssýn þín um hvernig við ættum að virða okkur sjálf, huga vel að öllu lífi. Garðurinn og blómin þín nutu nærgætni þinnar og umhyggju. Þú gladdist yfir gróskunni og rósunum sem þú varst að rækta.

Fyrir nokkrum árum byrjaðir þú í jóga hjá Guðjóni Bergmann. Þú hafðir gaman af að sýna okkur æfingar sem þú hafðir nýlært. Þú vildir koma kunnáttu þinni til yngri kynslóðarinnar, lagðir teppi á stofugólfið og lést aðra gera æfingar.

Þú hvattir okkur óspart áfram, sagðir okkur að skapa, hafa trú á eigin hæfileikum og treysta á dómgreind okkar. Þú tókst virkan þátt í lífi okkar, gleði okkar og sorgum. Að lokum vil ég þakka þér fyrir allt, ég elska þig og ég er stolt af því að vera dóttir þín.

Ó, heita og margreynda móðurást,

milda og sterka, sem aldrei brást,

og Drottins vors dýrasta gjöfin.

Hve lík er hún elsku lausnarans,

er leiðarstjarna hvers einasta manns,

er lýsir um hauður og höfin.

(Sumarliði Halldórsson.)

Þín dóttir,

Sveinhildur.

Mamma fæddi mig á sunnudegi, á sjómannadaginn, 6. júní 1971. Sólskin var og flaggað. Mamma, ég er stolt af þér í dag, þú hefur gefið mér svo margt sem er mér fjársjóður í minni vinnu og í móðurverki. Alltaf á mínum sýningum, málverkasýningum. var það mikið atriði að þú mættir í þínu veldi, sem móðir mín, sem María Sigursteinsdóttir. Elsku mamma, hvað ég bað oft Guð um kraftaverk í bænum mínum, frá því að þú veiktist á kvöldin að þú yrðir heilbrigð og þyrftir ekki að þjást vegna veikindanna.

Erfitt var oft á milli ykkar, mömmu og pabba, en í dag í minningunni eruð þið mitt stolt og ég virði ykkur í lífi og draumi. Þið voruð hetjur og eruð. Ég veit að þið eruð vinir í dag.

Mamma mín, þú varst mikil persóna, stór persóna. Það var eins og þegar þú gekkst út í Kaupfélagið Rangá að gangstéttirnar urðu litríkar og fuglar eltu þig. Það var nú oft að það kom fyrir að fuglar flugu inn til þín í þína fallegu höll. Takk mamma, að elska mig. Takk mamma, að vera kennari minn. Ég man þegar ég var um tólf ára aldur og mig langaði að taka þátt í eldamennsku og saumaskap. Alltaf varstu tilbúin með verkefni fyrir mig, eitthvað sem ég átti að leysa. Dæmi um það hvað mamma sá að dóttir hennar gat er að ég var svo handsterk sem stelpa að ég var látin sjá um að opna krúsir og naglalökk. Já, við sátum oft saman og ég setti rúllur í hárið þitt. Lögðum niður nokkur spil og spáðum og lásum úr spilunum hvað mundi gerast í okkar lífi.

Í minningunni var mikið tjáð með höndum, ég og mamma sátum saman og saumuðum og prjónuðum. Mig langaði svo undir það síðasta að hún hjálpaði mér með skírnarkjólinn fyrir barnið sem ég á von á í heiminn í lok mars, en ég fann það, elsku mamma, að þú varst orðin þreytt en það var samt eins og ég hugsaði eftir á nú hef ég lært handverk móður minnar. Ég varðveiti það í hjarta mínu. Ég og sonur minn Eiríkur Elí við þökkum þér fyrir að bjarga lífi okkar á sínum tíma. Við vorum öll hetjur á þessum tíma, þegar Elí litli slasaðist. En elsku mamma, ég bið í hjarta mínu að allt fari vel í lífinu. Ég mun ávallt bera virðingu fyrir þér.

Nú bý ég í tindrandi himnahöll.

Til hafsbrúna er allt í logandi spili.

Nú glampa við opin gullportin öll,

og grafkyrrt hvert ský eins og málverk á þili.

Það glitrar á spegla um voga og völl,

og vegghá sig reisa hvítmöttluð fjöll.

Gólfið er íslagt og ofið með rósum,

en efst uppi í hvolfi, yfir svellum og mjöll,

er krónan - með milljón af kvikandi ljósum.

Kveðja frá fjölskyldunni, Eiríki Elí, Vilhjálmi, barninu í maga mínum og Valgarði Bragasyni.

Kæra móðir og amma, við söknum þín.

Takk fyrir allt.

Hulda Vilhjálmsdóttir.