Kátt verður hjá KR-ingum í kvöld.
Kátt verður hjá KR-ingum í kvöld. — Morgunblaðið/ÞÖK
KNATTSPYRNUFÉLAG Reykjavíkur heldur í kvöld herrakvöld sitt, en það er meistaraflokkur karla í knattspyrnu sem hefur umsjón með því. Hefst borðhald klukkan 20 en húsið opnar klukkan 19.

KNATTSPYRNUFÉLAG Reykjavíkur heldur í kvöld herrakvöld sitt, en það er meistaraflokkur karla í knattspyrnu sem hefur umsjón með því.

Hefst borðhald klukkan 20 en húsið opnar klukkan 19. Veislustjóri verður Gísli Gíslason bæjarstjóri á Akranesi og ræðumaður kvöldsins verður Gísli Einarsson fyrrverandi ritstjóri Skessuhorns. Þá mun Jóhannes Kristjánsson eftirherma skemmta.

Eftir veitingar og skemmtun stígur svo á stokk ein vinsælasta hljómsveit landsins, Sálin hans Jóns míns og heldur uppi stuðinu til klukkan þrjú.

Kristinn Kjærnested, einn af skipuleggjendum herrakvöldsins, segir herrakvöldin hafa verið hafin aftur fyrir þremur árum, en hefð hafi verið fyrir þeim á öldinni sem leið. "Þetta er fyrst og fremst fjáröflun fyrir meistaraflokkinn. Við ákváðum að fara nýja leið í ár, hafa fyrst herrakvöld og síðan ball," segir Kristinn. "Við réðumst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og ákváðum að hafa Sálina hans Jóns míns, fremsta meðal jafningja, til að leika fyrir dansi og ná saman Vesturbæingum, sem og öllum áhugamönnum um góða skemmtun."