Sesselja Kristjánsdóttir
Sesselja Kristjánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óperuaríur eftir Bizet, Massenet, Offenbach og Rossini. Sesselja Kristjánsdóttir mezzosópran, Antonía Hevesi píanó. Miðvikudaginn 2. marz kl. 12.

HÁDEGISTÓNLEIKAR Hafnarborgar á miðvikudag gáfu sterka vísbendingu um að hálf klukkustund einu sinni á mánuði sé engin rányrkja, því hvert hinna á að gizka 100 sæta var skipað. Hvort áhugi á klassík, söng, óperu eða - þrengst skilgreint - vinsældir viðkomandi flytjenda réðu úrslitum verður að liggja milli hluta. En ekki spillti hljómgott húsnæði, og e.t.v. kunnu margir einnig að meta ölkeldukímnar kynningar ungversk-ættaða píanistans eftir hláturmildum undirtektum að dæma.

"Ástin er óstýrilátur fugl" skyndiútleggst Habaneran fræga úr Carmen Bizets, sem ásamt næsta atriði dagsins frá sömu óperu, seguidillunni "Undir virkisveggjum Sevillu", kvað skv. óstaðfestum kvitti að einhverju leyti hnuplað frá kúbverskum dansmúsíköntum er Bizet heyrði leika í París. Hitt stendur þó óhaggað, að það sem hann fékk út úr þessum seiðandi stefjum í stærra samhengi varð að magnaðri óperu - örugglega meðal hinna tíu vinsælustu allra tíma. Gaman var að upplifa fjölbreyttari túlkun hjá Sesselju en oft áður í ljósku gervi hinnar tælandi Carmenar, er hefði smellpassað sem erkiímynd kvenlegs hverflyndis að skilgreiningu hertogans í Rigoletto. Einkum þó í "dillunni" sem var virkilega skeinuhætt.

Í Va! laisse couler mes larmes úr "Werther" eftir Massenet, hinn franska Puccini, reyndi á legató-úthaldið, og komust harmþrungnu ástríðurnar þar mjög fallega til skila. Enn bætti við fjölbreytnina stutta en fyndna drykkjudaðrið í Ah! quel diner je viens de faire úr "La Périchole" Offenbachs. Litlu en litskrúðugu dagskránni lauk með glæsilegri úttekt á Una voce poco fa úr Rakara Rossinis. Kannski að frátöldu fullgeystu hraðavali í flúrköflunum, er runnu fyrir vikið heldur mikið saman (gaman væri til tilbreytingar að fá einhvern tíma að heyra alla tónana!). Enn sem fyrr mátti samt segja að flest bliknaði hjá einstæðum raddgæðum söngkonunnar, enda hanga slíkar mezzoraddir ekki á trjánum. Því meira keppikefli ætti þá líka að vera að geta í þokkabót dauðrotað samkeppnina með meiri fjölbreytileika í tónbeitingu og textatúlkun (að ógleymdum snarpari samhljóðum í framburði).

Aukalagið, gamla Eartha Kitt-númerið My Heart Belongs To Daddy, vakti mikla hrifningu, en var að mínu viti illa valið, þar eð hvergi bólaði á þeirri letilegu kraunsveiflu sem stíllinn þarfnast. Þaðan af síður í brokkhörðum píanóleiknum, þó að Antoníu Hevesí hefði annars tekizt dável upp allt fram að því.

Ríkarður Ö. Pálsson