Ólafur Oddsson
Ólafur Oddsson
Ólafur Oddsson fjallar um nám: "Kannski skipta peningar mestu máli hér."

FORYSTUMENN í allmörgum framhaldsskólum hafa lýst yfir áhyggjum af styttingu náms til stúdentsprófs, og þeir efast um, að eftir breytingarnar verði stúdentar jafn vel búnir undir háskólanám og áður, sbr. Morgunblaðið 26. jan. sl. - Menntamálaráðherra vísar einfaldlega þeim áhyggjum stjórnenda framhaldsskólanna á bug. - En er það farsælt að afgreiða þannig orð rektoranna og skólameistaranna? - Mér er yfirleitt sama um það, sem sumir stjórnmálamenn segja. Þeir mega vísa alls kyns ásökunum og skömmum á bug. En mér sárnaði hins vegar þessi valdsmannslega "afgreiðsla" á orðum skólamannanna. Stjórnmálamenn ættu að gæta hófs í orðum um stjórnendur skólanna. Hér má vitna til orða Hallgríms Péturssonar um skyldu valdsmanna til að vera öðrum góð fyrirmynd:

Yfirmönnunum er því vant,

undirsátarnir hnýsa grannt

eftir því, sem fyrir augun ber,

auðnæmast þó hið vonda er;

hvað höfðingjarnir hafast að,

hinir meina sér leyfist það.

Þegar áhyggjur stjórnenda framhaldsskólanna um aukið álag á nemendur eru bornar undir menntamálaráðherra, er svarið það, að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því. Íslenskir unglingar geti farið í gegnum framhaldsskóla á þremur árum líkt og jafnaldrar þeirra erlendis. - Ekki er hægt að grípa hér bara eitt atriði, þ.e. árin þrjú, heldur þarf að huga að þróuninni í einstökum samfélögum. Íslenskar venjur í þessum efnum hafa þróast í samræmi við hérlendar aðstæður. Opinber stuðningur við námsmenn og atvinnuaðstæður eru með allt öðrum hætti hér en annars staðar á Norðurlöndum. Viljum við innleiða hið skandinavíska mynstur hjá okkur? Ef svo er, verður stuðningur við nemendur að breytast mjög. Þetta hefði annars mikil áhrif á jafnrétti til náms.

Bent hefur verið á, að danskir (18 ára) og sænskir (16 ára) framhaldsskólanemar fá námsstyrki, og þeir fá ókeypis námsbækur. Skólagjöld þeirra eru engin. - Þeir sem nú benda á námsárin þrjú hjá frændþjóðum okkar geta ekki bara tekið þau og sleppt öðru. Vilja þeir, að íslenskir framhaldsskólanemendur fái ókeypis bækur, sem oft eru mjög dýrar, og styrki, eins og danskir og sænskir jafnaldrar þeirra fá, eða miðast "ramminn" um skólahald einungis við árafjöldann?

Sagt er, að meginþorri þess námsefnis, sem fyrirhugað sé að færa niður í grunnskólann, sé þegar kenndur þar, og með fyrirhugaðri breytingu um styttingu náms til stúdentsprófs sé verið að koma í veg fyrir endurtekningu og nýta tíma nemenda betur (Morgunblaðið 27. jan. sl.). - Ég tel ásakanir um, að tími sé illa nýttur í skólum, ekki á rökum reistar. Svo er ekki, þar sem ég þekki til.

Námsefni í grunnskólunum er ætlað nemendum á tilteknu skeiði, en námsefni í framhaldsskólunum er ætlað nemendum á öðru þroskastigi. Vera má, að sumir telji, að endurtekning sé óæskilegt fyrirbæri í kennslu. Ég hef lengi fengist við kennslu, og stundum er nauðsynlegt að endurtaka hlutina. Og þetta er hinum ágætu sérfræðingum í menntamálaráðuneytinu ljóst. Í Breyttri námsskipan er sumt endurtekið aftur og aftur o.s.frv. Á 9. bls. standa t.d. þessi orð: "Með breytingunum er þess árangurs vænst að meðalnámstími til stúdentsprófs styttist og að námið veiti jafn góðan eða betri undirbúning fyrir nám á háskólastigi og nú." - Þessi boðskapur er svo endurtekinn aftur og aftur, t.d. á 12., 36., 51. bls. og víðar. Sams konar endurtekningar eru víða í ritinu og einnig í Skýrslu um styttingu námstíma til stúdentsprófs. Og svo koma yfirlýsingar um að forðast beri endurtekningar!

Því hefur verið lýst yfir, að tilgangur þessara breytinga sé ekki sá að spara fé, enda kosti breytingin mikið. Um þetta er fjallað í Breyttri námsskipan. Þar er áætlað, að töluverður kostnaður fylgi þessum breytingum næstu árin, áður en fram komi "jákvæð fjárhagsleg áhrif", þ.e. sparnaður. Síðan segir: "Hér er áætlað að jákvæð fjárhagsleg áhrif breytinganna í heild komi fyrst fram árið 2016 og verði eftir það nálægt 700 m. kr. á ári en það er liðlega 6,3% af útgjöldum ríkisins til framhaldsskólastigsins í fjárlögum 2004" (65. bls.). - Og hér fer nú málið töluvert að skýrast, og kannski er þetta kjarni málsins, en geta má þess, að grunnskólar eru reknir af sveitarfélögunum, en ríkið rekur framhaldsskóla. Skiptir það máli? - Kannski skipta peningar mestu máli hér. Menn geta íhugað þetta.

Að undanförnu hef ég í starfi mínu fjallað um eddukvæði og áhrif þeirra á Jónas Hallgrímsson og fleiri, og einnig um Halldór Laxness og stöðu hans í ríki skáldskaparins. Sumir myndu nú eflaust telja, að hér mætti nýta tímann miklu betur! Og fram eru komnar nýjar hugmyndir - frá ótrúlegum stöðum - um að nú skuli leggja minni áherslu á bókmenntasögu og bókmenntafræði í skólum. Sennilegt má telja, ef svo fer fram sem horfir, að sífellt minni áhersla verði lögð á svo fánýtt efni og því verði loks sleppt með öllu. - Hugmyndirnar í Breyttri námsskipan eru varhugaverðar, og þær gætu haft skaðleg áhrif í menntamálum þjóðarinnar. Nánar verður fjallað um þetta í næstu grein.

Ólafur Oddsson fjallar um nám