Seltjarnarnes | Tillaga um stofnun formlegs samráðshóps í skipulagsmálum var samþykkt samhljóða á fundi í skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness í vikunni. Kemur þetta í kjölfar mótmæla um 1.

Seltjarnarnes | Tillaga um stofnun formlegs samráðshóps í skipulagsmálum var samþykkt samhljóða á fundi í skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness í vikunni. Kemur þetta í kjölfar mótmæla um 1.100 íbúa vegna fyrirhugaðs skipulags á Hrólfskálamel og Suðurströnd.

Fulltrúar Neslistans á Seltjarnarnesi fagna því að meirihluti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn hafi ákveðið að stofna samráðshóp, sem mun hafa það hlutverk að móta tillögur um skipulagsmál í bæjarfélaginu.

Í tilkynningu frá Neslistanum er bent á að Neslistinn hafi lagt til stofnun slíks hóps fyrir rúmlega tveimur árum síðan, en þá hafi tillaga um það verið felld af meirihluta sjálfstæðismanna.

"Það er sérstakt fagnaðarefni að meirihluti sjálfstæðismanna ætlar nú loksins að breyta um stjórnunarstíl og taka upp eðlileg og nútíma vinnubrögð í stjórnsýslunni á Nesinu. Það er hið raunverulega hagsmunamál allra Seltirninga," segir í tilkynningunni.