Kimi Räikkönen á ferð á bílnum sem McLaren-menn vona að eigi eftir að reynast "Ferrari-bani".
Kimi Räikkönen á ferð á bílnum sem McLaren-menn vona að eigi eftir að reynast "Ferrari-bani". — Reuters
FORSVARSMENN McLaren-liðsins gerast djarfir og segjast hafa með keppnisbíl komandi vertíðar smíðað bíl sem sigrað getur Ferrari-fákinn í hreinum bardaga. MP4-20 bíllinn sé Ferrari-bani.

FORSVARSMENN McLaren-liðsins gerast djarfir og segjast hafa með keppnisbíl komandi vertíðar smíðað bíl sem sigrað getur Ferrari-fákinn í hreinum bardaga. MP4-20 bíllinn sé Ferrari-bani. Liðið vonast til að verða mun sterkara á velli í ár en í fyrra er það hlunkaðist niður í fimmta sæti í stigakeppni bílsmiða eftir verstu byrjun sína frá því árið 1981.

Martin Whitmarsh, framkvæmdastjóri McLaren, sagði að bíllinn ætti að taka forvera sínum frá í fyrra talsvert fram. "Getum við lagt Ferrari að velli? Já, ég trúi því. Það er ekki hægt að álasa þeim fyrir að standa sig vel. Við erum þess megnugir að vinna þá - það hefur okkur tekist áður og við munum gera það á ný," sagði hann.

Bíllinn er sagður nýr frá grunni og kaus liðið að fara þá leið vegna nýrra reglna um yfirbyggingu, loftaflsfleti, dekk og mótor. Hliðarbelgir eru mótaðri og um margt þykir McLarenbílnum svipa til Renault-bílsins. En til að hafa eitthvað í Ferrari þarf skilvirkni yfirbyggingar og loftaflsflata að vera ekki minni en ítölsku meistaranna. Fróðum ber saman um að McLaren búi yfir öflugasta tríói loftaflsfræðinga í Formúlu-1 í þeim Adrian Newey tæknistjóra, Nicolas Tombazis og Peter Prodromu.

Miðað við þróunarferil bílsins og reynslu af erfiðleikum undanfarinna ára er almennt við því búist að loftafl MP4-20 bílsins verði gott. Vélvirkjar liðsins segja bílinn einfaldari í sniðum og breytanlegri en bílar þriggja síðustu ára. Yfirumsjón með smíði hans hafði tæknistjórinn Adrian Newey og orðrómur er um að þetta sé síðasti bíllinn sem hann hannar fyrir McLaren.

"Við fastsettum tæknilýsingu bílsins í maí í fyrra og hófst þá 3.600 klukkustunda þróunarvinna í vindgöngum," segir Newey sem stjórnað hefur hönnun og smíði allra bíla McLaren frá og með 1998. Ásamt honum á hönnuðurinn Mike Coughlan mikinn þátt í hönnuninni. Hann hefur þurft að kljást við mikið mótlæti undanfarin misseri og þykir hafa yfirstigið það en hann var megin hugmyndasmiður bíla tveggja síðustu ára sem reyndust lengst af nokkuð misheppnaðir.

Mikið mæðir á mótorsmiðju Mercedes

Við meiru er búist frá mótorsmiðju McLaren, Ilmor-fyrirtækinu sem er í eigu Mercedes, því þar hefur mikil uppstokkun og verklagsbreyting átt sér stað. Segir Whitmarsh að með því eigi veikleikar varðandi afl og endingu að vera að baki. Bæði hafi átt sér stað tæknilegar breytingar og breytingar orðið á aðferðafræði. "Áður var einbeitingin ekki nógu skörp en með nýjum stjóra Ilmor, Ola Kallenius, verður breyting þar á," segir hann.

Og ljóstrar því upp að kröfur um tvöfalt meiri endingu mótora í ár hefðu verið liðinu mikill höfuðverkur ef ekki hefði verið stokkað upp í mótorsmiðjunni. Ilmor þykir þurfa mjög að sanna sig eftir nokkur slök ár. "Tveggja keppna mótor er gjörólíkur hinum fyrri, frá innsta kjarna og út að yfirborði. Ég er viss um að við höfum bætt mótorinn mikið en við eigum eftir að sjá hvort Münchenhestur [Mercedes] er öðru vísi en Stuttgarthestur [BMW] ," segir Whitmarsh.

Dennis á förum?

Þá á eftir að koma í ljós hvernig franska dekkjafyrirtækinu Michelin tekst upp í samstarfinu við McLaren. Skipulagsbreytingar og uppstokkanir hafa einnig átt sér stað hjá keppnistæknideild Michelin í vetur og óljóst til hvers þær kunni að leiða. Vísbendingar úr bílprófunum undanfarnar vikur þykja þó lofa góðu í samkeppninni við Bridgestone og Ferrari.

McLaren er einkar mikilvægt að komandi keppnistíð verði liðinu árangursrík. Þrálátur orðrómur - sem reyndar er stöðugt neitað - er um að liðsstjórinn Ron Dennis ætli að draga sig í hlé. Er honum á móti skapi að gera það þegar illa gengur. Þá hefur ríkt spenna milli stjórnenda McLaren og Mercedes, sem á reyndar 40% í liðinu, vegna þess lélega mótors sem liðinu hefur verið lagður til undanfarin ár.