Halldóra Helgadóttir fæddist á Akureyri 15. apríl 1932. Hún lést 7. febrúar síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Hallgrímskirkju 16. febrúar.

Elsku Dóra. Þá ertu farin. Farin til Friðriks og hleypur um sveitir, hlærð og ert kát. Þannig man ég best eftir þér. Þú varst alltaf kát og hlæjandi. Þegar ég var barn voru mínar skemmtilegustu stundir hjá ykkur á Harrastöðum með hundinum Kolu. Eitt sinn passaðirðu mig, við vorum mikið úti og ég fékk að synda með þér í sjónum. Það var mikil upplifun sem ég gleymi aldrei.

Ég fór líka oft með pabba og mömmu upp í Kjós þar sem þið áttuð sumarbústað. Friðrik sýndi mér þá plöntur og fræddi mig um nöfn þeirra. Náttúran var ykkur hjónunum svo hugleikin. Ferðirnar út í Breiðafjarðareyjar eru einnig ógleymanlegar. Þvílík Paradís á jörð. Hún er mér kær myndin sem Friðrik málaði þar af mér og gaf mér síðar. Ég hugsa oft um þessar stundir með ykkur og þær fylla mig alltaf jafn mikilli gleði.

Elsku Dóra. Megi góður Guð geyma þig, Friðrik, Unni og Kolu. Minningin um þig lifir í hjarta mér.

Þín frænka,

Dóra.