[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mesti verðmunurinn í verðkönnun Morgunblaðsins í gær var á vanillu-mjúkís eða 122% og það munar 112% á hæsta og lægsta verði á gullauga-kartöflum.

Bónus er með lægsta verðið í 39 tilvikum af 43 en fast á hæla fylgir verslunin Kaskó með næstlægsta verðið. Þetta kemur fram í verðkönnun sem Morgunblaðið gerði í fjórum lágvöruverðsverslunum í gær á höfuðborgarsvæðinu. Farið var upphaflega með lista í fimm verslanir en þvertekið var fyrir að blaðamaður tæki niður verð í Spar-versluninni í Bæjarlind.

Þónokkur verðmunur er á ýmsum matvörum en mestur reyndist þó 122% munur á hæsta og lægsta verði á mjúkís.

Mikill titringur var í verslununum þegar blaðamenn bar þar að garði en því starfsfólki sem blaðamenn ræddu við bar saman um að þó að mikið álag fylgdi verðstríðinu þá væri það af hinu góða því það héldi fólki við efnið.

Fylgst með samkeppnisaðilum

Í Krónunni fylgdust þrír karlmenn gaumgæfilega með blaðamanni taka niður verð. Þeir reyndust þá vera frá öðrum lágvöruverðsverslunum.

Í Nettó var mikið um að vera og blaðamaður sem þangað fór sá verðið breytast á ýmsum vörum meðan hann staldraði við. Verð á tveggja kílóa poka af gullauga karöflum fór t.d. úr 138 krónum í 119 krónur meðan hann var að skrifa niður verð í grænmetisdeildinni. Starfsmaður Nettó kom svo með lista af nýjum verðbreytingum sem áttu strax að taka gildi. Í verðtöku sem þessari er hinsvegar ekki hægt að taka tillit til verðbreytinga sem eru gerðar eftir að búið er að skrifa niður verðið.

Í Bónus var svipað upp á teningnum. Blaðamaður var rétt búinn að skrifa niður verð á Havrefras morgunkorni þegar starfsmaður Bónuss kom með nýjan miða til að setja á hillu. Blaðamaður upplýsti starfsmann um að hann gæti ekki breytt verðinu hjá sér eftirá.

Þegar verð var kannað í Kaskó var starfsmaður frá samkeppnisaðila í búðinni að fylgjast með verði og hann virtist vera orðinn vel kunnugur starfsfólkinu í Kaskó.

Verði ekki breytt eftir á

Lagt var af stað í verðkönnunina með 70 vörutegundir á lista en í töflunni eru einungis 43. Ástæður fyrir því eru nokkrar. Sumar vörur voru einfaldlega ekki til í öllum verslununum, stundum í ólíkum stærðareiningum og í einhverjum tilfellum virðist hafa orðið misskilningur milli blaðamanns og verslunarstjóra þ.e. hringt var eftir á og beðið um að gerðar væru leiðréttingar á verði. Það var hinsvegar ekki gert en vörurnar teknar út í nokkrum tilvikum.

Verðkönnunin var gerð um hálftvöleytið í öllum fjórum verslununum samtímis og stuðst var við leiðbeinandi reglur Samkeppnisstofnunar við verðtöku. Ekkert tillit var tekið til gæða eða þjónustu í viðkomandi verslunum heldur var bara um hreinan verðsamanburð að ræða.