Frá Kia kemur þessi smái og líklega knái Rio.
Frá Kia kemur þessi smái og líklega knái Rio.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Enn á ný munu um 800 þúsund gestir skoða það nýjasta frá bílaframleiðendum heimsins á alþjóðlegu sýningunni sem nú stendur í Genf. Jóhannes Tómasson sá auk nýju bílanna ýmsar gamlar gerðir sem teflt var fram til að minnast afmælisáfanga í sýningarhaldinu og sögu bílsins.

Í 75 ár hefur árleg alþjóðleg bílasýning verið haldin í Genf í Sviss og í ár er engin undantekning á því. Miklu fremur ástæða til að gera hana enn betur úr garði og minnast einnig þess áfanga að 100 ár eru liðin frá því Svisslendingar hófu slíka bílasýningu fyrir heimamarkað sem síðan varð að þessari þekktu alþjóðlegu sýningu. Sýningarstjórnin lagði að framleiðendum að rifja líka upp söguna við þessi tímamót með því að minna á áfangasigra sína gegnum árin og horfa þannig til fortíðar um leið og nútíðin er sýnd og svo að sjálfsögðu framtíðarbílarnir eins og jafnan hefur verið í Genf.

Óvenjumargar nýjar gerðir eru frumsýndar í Genf að þessu sinni. Svo nokkrir séu nefndir eru það Alfa Romeo 159, Citroën C1, Fiat Coma, BMW 3-línan, Kia Rio, Lexus IS, Mazda MX-5, Mercedes Benz B-línan, Opel Zafira, Peugeot 107, Toyota Aygo og Volkswagen Passat. Þá má í fyrsta sinn í Evrópu sjá nýja útgáfu Mercedes Benz M-jeppans, Hummer H3-pallbíl, hugmyndabílinn LF-A frá Lexus. Alls eru rúmlega 50 gerðir frumsýndar og nokkrar til viðbótar hafa ekki verið sýndar fyrr í Evrópu. Sýnendur eru um 900 frá 30 löndum.

Það sem Mazda sýnir meðal annars er nýr sportbíll, MX-5, sem er eilítið stærri og rúmbetri en fyrirrennarinn. Í 16 ár hefur Mazda boðið MX-sportbíl sem hefur verið í stöðugri þróun og er nú komið að þriðju kynslóðinni. Bíllinn hefur jafnan verið þróaður undir hinu japanska einkenni sem snýst um að sameina mann og hest og má segja að bíll sem þessi snúist eingöngu um það að ökumaður hafi ekkert annað en ánægju af akstrinum. Hefur ekki síst verið horft til endurbættrar fjöðrunar í þessu tilliti. Bíllinn er orðinn frísklegri í útliti en fyrri kynslóðir og hann er boðinn með vélum úr MZR-fjölskyldunni, 1,8 lítra og 126 hestafla vél og tveggja lítra 160 hestafla vél.

Nýr Lexus IS í haust

Lexus leggur mest upp úr kynningu á hinum nýja IS-bíl sem er algjörlega endurnýjaður. Hann er væntanlegur á alla markaði í byrjun nóvember. IS-bíllinn hefur skemmtilegar línur og er frískleg endurnýjun frá fyrri bíl. Hann verður boðinn með 2,5 lítra og 204 hestafla bensínvél og 2,2 lítra dísilvél, þeirri fyrstu í bíl frá Lexus, og er hún 177 hestöfl. Karl Schlicht, aðstoðarforstjóri Lexus í Evrópu, segir að með dísilvélinni nái Lexus enn betri samkeppnisstöðu. Á fundi á bás Lexus var kynnt áætlun um að opna síðla árs 300 sölustaði Lexus í Japan.

Önnur nýjung frá Lexus er að RX 400-jeppinn verður nú boðinn með hybrid-vél eða blönduðum orkugjafa bensíns og rafmagns eins og Prius frá Toyota. Er hans von á markað með vorinu, í maí-júní. Hann verður boðinn með 3,3 lítra V6-vél sem er 211 hestöfl og segir Haraldur Stefánsson, sölustjóri hjá Lexus, að hér sé á ferðinni kraftmikill bíll sem gefi í engu eftir venjulegum bensínbíl en sé mun sparneytnari. Rafmótorarnir eru tveir, að framan og aftan, alls 272 hestöfl, og með þessari samsetningu á bíllinn ekki að eyða nema átta lítrum á hundraðið. Við rólegan akstur er bíllinn eingöngu knúinn rafmótorunum en þegar herða skal á kemur bensínvélin inn og um leið hleðst inn rafmagn. Bíllinn á að ná 200 km hámarkshraða og viðbragðið í 100 km hraða tekur aðeins 7,7 sekúndur. Með þessum bíl geta notendur lagt sitt af mörkum til að draga úr mengandi útblæstri og þrátt fyrir að hann verði talsvert dýrari segir Haraldur að sumir kaupendur séu tilbúnir að taka því en á móti kemur að eyðslan er minni.

Fyrsta nýjungin frá Lexus á þessu ári verður þó GS-bíllinn í endurnýjaðri útgáfu, sá stærsti í Lexus-flotanum, sem verður væntanlega kynntur síðar í þessum mánuði. Kringum 100 Lexus-bílar seldust á Íslandi í fyrra og eru flestir af gerðinni RX eða kringum 50 og um 40 af IS-gerðinni. Alls eru um 450 bílar frá Lexus á íslenskum vegum.

Passat í sjöttu útgáfunni

Af öðrum nýjungum má nefna Suzuki Swift sem er orðinn stærri bíll og mjög áhugaverður. Ekki hefur farið mikið fyrir Swift síðustu árin en með þessari nýju gerð á hann fullt erindi til Íslands og er væntanlegur í sumar. Þá sýnir Honda hugmyndabílinn Civic sem talsmenn fyrirtækisins segja að sé mjög nálægt því sem verður þegar kemur að fjöldaframleiðslu. Volkswagen Passat kemur nú í sjöttu útgáfu og með honum kynnir framleiðandinn nýja línu í útliti þótt hann beri ákveðin ættareinkenni. Bíllinn er nokkru stærri og ýmsar nýjungar er að finna innandyra eins og rafknúna handbremsu, rofa til að gangsetja bílinn og innstungu til að hlaða fartölvuna. Annar þýskur framleiðandi, BMW, sýnir nýjan þrist og er það fimmta kynslóðin. Þá mátti einnig sjá þar endurnýjun á 5- og 7-línunum og ekki síst hinn nýja 130i-sportbíl sem þeyta má í 100 á 6,2 sekúndum með 258 hestafla vélinni.

Sýning í stöðugri þróun

Forráðamenn Genfar-sýningarinnar segja að hún hafi tekið nokkrum breytingum á liðnum árum. Þar sem framleiðendur hafa lagt aukna áherslu á það síðustu árin að kynna helst alltaf eitthvað nýtt og fréttnæmt í Genf hefur sýningunni jafnan verið vel sinnt af fjölmiðlum um allan heim. Tveir dagar eru ætlaðir fjölmiðlum áður en hún er opnuð almenningi og eru um fjögur þúsund blaða- og fréttamenn í iðandi kös þessa tvo daga. Segja sýningarhaldarar að vægi sýningarinnar sem sölusýningar fyrir heimamenn hafi vikið nokkuð fyrir þessum atgangi í alþjóðlegu kynningarstarfi. En sýningin er þýðingarmikil sem hin eina sem haldin er árlega í Evrópu og framleiðendur standa jöfnum fæti í kynningunni í Genf þar sem enginn þeirra rekur verksmiðjur í Sviss. Í lokin má nefna að gefin er út 300 blaðsíðna bók um sögu sýningarinnar, póststjórnin gefur út frímerki og slegin er 20 og 50 franka mynt í tilefni af afmælishaldinu.

joto@mbl.is

Höf.: joto@mbl.is