Undir Reynisfjalli Hundur göngumanns merkir skuggann sinn á Oddsfjöru suður undir Reynisfjalli. Fjaran virðist ná langleiðina út að Reynisdröngum en mikill áll er enn á milli.
Undir Reynisfjalli Hundur göngumanns merkir skuggann sinn á Oddsfjöru suður undir Reynisfjalli. Fjaran virðist ná langleiðina út að Reynisdröngum en mikill áll er enn á milli. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
Mýrdalur | Mikil fjara hefur myndast undir sunnanverðu Reynisfjalli svo að nú er hægt að ganga þurrum fótum fyrir fjallið.

Mýrdalur | Mikil fjara hefur myndast undir sunnanverðu Reynisfjalli svo að nú er hægt að ganga þurrum fótum fyrir fjallið. Gerist það á áratuga fresti og nýta nú margir íbúar Mýrdals sér þetta sjaldgæfa tækifæri og geta þá um leið dáðst að Reynisdröngum úr návígi úti á Oddsfjöru.

Svæðið austan undir sunnanverðu Reynisfjalli norður undir Þórshafnarklakkinn var fyrr á öldum kallað Þórshöfn, segir á vefsíðu Mýrdalshrepps. Árið 1636 lenti Oddur Pétursson formaður á báti frá Vestmannaeyjum í hrakningum ásamt skipshöfn sinni austur með suðurströndinni og gátu þeir hvergi lent báti sínum, fyrr en þarna. Þurftu þeir að klífa Reynisfjallið að sunnan til þess að komast til byggða og þótti það hin mesta þrekraun, síðan hefur þessi fjara verið kölluð Oddsfjara.

Sandurinn á suðurströndinni er á stöðugri hreyfingu og fer nokkuð eftir ríkjandi vindáttum hvar hann grefur úr og hvar hann hleðst upp og á sama hátt er með Oddsfjöru að hún kemur og fer. Oftast er þar ekkert nema urð og grjót og geta liðið mörg ár eða jafnvel áratugir á milli þess að hún myndist, en í ríkjandi vestlægum áttum undanfarinna daga er nú komin þó nokkur fjara sem er mest syðst og skagar langt út frá fjallinu. Frá Vík séð sýnist sem hún sé komin nálægt því hálfa leið út að Reynisdröngum. Sú er þó ekki raunin þar sem mikill áll er á milli, en ótrúlega er þó stutt á milli ef staðið er í fjörunni. Jafn mikil og fjaran er nú varð hún líklega síðast í kringum 1983, segir á vefnum.

Þórshafnarklakkur er landamerki milli Reynishverfisjarða og Víkurjarða og var til skamms tíma ófært yfir hann, en mikið grjóthrun úr fjallinu í kringum 1990, sem lenti yfir Klakkinn og út í sjó, gerði það að verkum að hægt er að klöngrast þar yfir. Fyrstur til að fara þá leið var Ragnar Indriðason, bóndi í Görðum í Reynishverfi, og fór hann þar um einungis fimm dögum eftir að skriðan féll. Oddsfjara var lítil þá og þurfti hann því að fara um grjóturðina með fjallinu alla leið. Nokkrir hafa farið þar um síðan og notfærði Brandur Jón Guðjónsson úr Vík sér þær aðstæður sem nú hafa skapast og fór á dögunum frá Vík og suður með fjallinu, yfir Þórshafnarklakk og á Oddsfjöru og gekk svo inn Reynishverfi og fyrir Fjallsendann að norðan og þaðan til Víkur. Á vefnum er getum að því leitt að hann sé fyrsti maðurinn sem gengur þurrum fótum umhverfis Reynisfjall í einni ferð. Ferðin tók rúmar þrjár klukkustundir.

Síðan hafa fleiri nýtt sér tækifærið og gengið suður fyrir Reynisfjall.