Michael Schumacher ásamt Rubens Barrichello í Melbourne í fyrradag. McLaren vildi ekki ráða hann er Schumacher bauðst til að koma til liðsins.
Michael Schumacher ásamt Rubens Barrichello í Melbourne í fyrradag. McLaren vildi ekki ráða hann er Schumacher bauðst til að koma til liðsins. — ap
MCLAREN fékk tækifæri til að ráða Michael Schumacher til sín frá Ferrari fyrir fimm eða sex árum en ákvað eftir talsverða umhugsun að grípa ekki gæsina, að sögn liðsstjórans Ron Dennis. "Okkur bauðst möguleikinn en notfærðum okkur það ekki.

MCLAREN fékk tækifæri til að ráða Michael Schumacher til sín frá Ferrari fyrir fimm eða sex árum en ákvað eftir talsverða umhugsun að grípa ekki gæsina, að sögn liðsstjórans Ron Dennis.

"Okkur bauðst möguleikinn en notfærðum okkur það ekki. Sú sameiginlega niðurstaða liðsins var að það væri ekki hið rétta fyrir fyrirtækið," sagði Dennis á fundi með hópi blaðamanna í tæknimiðstöð McLaren, spurður um hvort hann hefði einhvern tíma átt þá ósk að sjá heimsmeistarann margfalda keppa á sínum bílum.

Schumacher, elstur keppenda sem mæta til leiks í Melbourne, hefur keppni í ár sem manna líklegastur til að hreppa heimsmeistaratitil ökuþóra þar sem hann vann 13 mót af 18 í fyrra.

Síðasti heimsmeistari McLaren - sem brúkað hefur Mercedes-mótora í tæpan áratug - er Finninn Mika Häkkinen sem vann titilinn 1998 og 1999. Dennis gefur til kynna að um það leyti hafi hann átt viðræður við Schumacher um að hann kæmi til McLaren.

Schumacher réð sig til Ferrari frá Benetton árið 1996 og hafði þá þegar unnið ökuþóratitilinn tvisvar. Vann hann ekki titil á ný fyrr en árið 2000 er hann færði Ferrari heimsmeistaratitil ökuþóra í fyrsta sinn í 21 ár.

Dennis ræddi við Schumacher í Mónakó á fundi sem hann segist telja að sá síðarnefndi hafi átt frumkvæði að en Schumacher ók á sínum tíma fyrir Mercedes í götubílaflokki áður en hann sneri sér að Formúlu-1.

"Ég trúi því að við hefðum getað náð saman þannig að hann hefði keppt fyrir okkur. En um leið og þú segir við einhvern: "Vilt þú keppa fyrir þetta lið?" og hann svarar játandi þá er maður um leið skuldbundinn að halda því viðræðuferli áfram," segir Dennis.

Lið hans varð í fimmta sæti í stigakeppni bílsmiða í fyrra en Ferrari vann þá keppni sjötta árið í röð.

"En maður spyr þeirrar spurningar ekki fyrr en maður er í aðstöðu til. Þetta voru langar samræður og frá þeim fórum við og íhuguðum stöðu hvors aðila fyrir sig og til að ákveða hvort þeirrar spurningar yrði spurt. Niðurstaðan varð sú að við komum okkur ekki í þá stöðu að spyrja hennar," segir Dennis.

"Þetta var ekki bara mín ákvörðun ... heldur ákvörðun fólksins sem þurfti að ræða málið við. Ég get horft um öxl og velt því fyrir mér hvort ég iðrist niðurstöðunnar eða ekki. En þetta var niðurstaða hópsins og ég var hluti af honum," bætir Dennis við.

Hann segir að peningar hafi ekki ráðið úrslitum en játar þó að minningin um samning við þáverandi þrefaldan heimsmeistara Ayrton Senna - sem storkaði fjárhag liðsins þannig að endar náðu ekki saman í rekstri þess - hafi ráðið einhverju. "Ég átti stóran þátt í því að borga Ayrton meiri laun en fyrirtækið hafði efni á," segir Dennis að lokum.