María Sigríður Brynjólfsdóttir fæddist 4. mars 1919. Hún lést á dvalarheimilinu Droplaugarstöðum 7. febrúar síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Lágafellskirkju 11. febrúar.

Hvað er betri huggun í sorg en fallegar minningar um sína nánustu, en þær eru sannarlega ljúfar þær minningar sem við barnabörnin eigum um Maríu ömmu og Jón afa. Helgarheimsóknirnar til þeirra voru í sérstöku uppáhaldi hjá okkur. Það var yndislegt að koma inn á þeirra fallega heimili, enda var vel tekið á móti öllum gestum og rjómapönnukökurnar hennar ömmu voru auðvitað það besta í heimi. Listrænir hæfileikar þeirra hjóna létu ljós sitt skína allt í kringum þau og það sást að þau nutu þess að hafa fallega hluti í kringum sig. Þau voru mikil snyrtimenni og ákaflega glæsileg í alla staði, sem gerði það að verkum að við vönduðum ósjálfrátt framkomu okkar í návist þeirra. María amma var heldur ekki spar á hrósyrðin þegar henni fannst tilefni til og leyndi ekki því sem hún var ánægð með. Þannig laðaði hún fram það besta í fari þeirra sem í kringum hana voru. Okkur fannst líka álit hennar alltaf skipta miklu máli. En amma var miklu meira en glæsileg kona, hún var líka skemmtileg, glaðlynd og glettin. Félagsskapur hennar var alltaf jafn upplífgandi, samræðurnar fræðandi og skemmtilegar, enda var hún vel að sér og fróð um marga hluti. Og oftast gleymdist hvað tímanum leið. Hún var mikið tónskáld og okkur þótti það alltaf jafn hátíðlegt þegar hún settist við píanóið og lék fyrir okkur lögin sín eða annarra. Fátt gladdi hana þó meira en að gefa fallega gjöf, hún var sannkallað jólabarn, en stærsta gjöfin af öllu var kærleiki hennar í okkar garð. Við þökkum henni fyrir það og minnumst með söknuði og hlýju okkar ástkæru ömmu og afa, sem hafa nú sameinast að nýju.

Vænglétta vorgola,

viltu bíða mín

og leiða mig þangað,

sem ljósbjarminn skín?

Fljúgðu með mér þangað,

sem fjallsýnin er hæst,

vorloftið hreinast

og himinljósið næst.

(Hulda.)

Brynjar, Jón Gunnar, María og Guðrún.