Ferrari-liðið æfir þjónustustopp en í þeim má nú aðeins taka bensín en ekki skipta um dekk.
Ferrari-liðið æfir þjónustustopp en í þeim má nú aðeins taka bensín en ekki skipta um dekk.
Með nýjum tæknireglum fyrir árið í ár mega ökuþórar ekki endurnýja dekkin í þjónustustoppum eins og hingað til. Einungis má í þeim bæta bensíni á bílana og mun tankfylli þeirra því ráða hvort stoppin verða tvö eða þrjú að jafnaði í mótum.

Með nýjum tæknireglum fyrir árið í ár mega ökuþórar ekki endurnýja dekkin í þjónustustoppum eins og hingað til. Einungis má í þeim bæta bensíni á bílana og mun tankfylli þeirra því ráða hvort stoppin verða tvö eða þrjú að jafnaði í mótum.

Sumir telja að breytingin muni leiða til færri stoppa en á undanförnum árum. Tæknistjóri Ferrari, Ross Brawn, telur að stoppin muni áfram ráða miklu um hver endanleg niðurstaða kappaksturs verður.

"Við verðum að bíða og sjá hvernig þróunin verður á einstökum brautum," sagði Brawn er Ferrari afhjúpaði 2005-bíl sinn í síðustu viku. "Ég býst ekki við miklum breytingum á fjölda hléa frá því sem verið hefur og held þau verði yfirleitt tvö eða þrjú. Útreikningarnir byggjast nú einvörðungu á bensínhleðslunni ef miðað er við að dekkin haldi sér. Herfræðin mun svo breytast eitthvað frá einu móti til annars," bætir Brawn við.

Ökuþórar verða að fara vel með dekkin undir bílunum þar sem þau verða að endast allan kappaksturinn. Áfyllingin í upphafi keppni í framhaldi af seinni tímatökunni mun hafa mikil áhrif á slit dekkjanna.

"Við munum fljótt komast að því hvar bestu mörkin eru - milli lítils eldsneytis eða mikils - með tilliti til dekkjaslits," segir Brawn. "Okkur líkar þessi áskorun, þeir sem reikna best út munu skapa sér áhugaverða möguleika," bætir hann við.