Ískönnunarflug Landhelgisgæslunnar í upphafi vikunnar leiddi í ljós að ís er óvenju nálægt landi þótt gisinn sé.
Ískönnunarflug Landhelgisgæslunnar í upphafi vikunnar leiddi í ljós að ís er óvenju nálægt landi þótt gisinn sé.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SAMKVÆMT nýju ískorti Landhelgisgæslunnar er hafís óvenju nálægt landi nú um stundir og hefur raunar ekki verið svona austarlega við landið síðan 1988, en ísinn nær austur fyrir Langanes.

SAMKVÆMT nýju ískorti Landhelgisgæslunnar er hafís óvenju nálægt landi nú um stundir og hefur raunar ekki verið svona austarlega við landið síðan 1988, en ísinn nær austur fyrir Langanes. Norðvestur af landinu eru aðeins tíu sjómílur að hafísnum frá Kögri, sem þýðir að hafís er nálægt siglingaleiðum í kringum landið.

"Þetta er mjög óvenjulegt og stafar af því að sl. mánuð hefur verið ríkjandi afar staðföst hæð og hæðakerfi yfir Norður-Atlantshafi. Þessari kyrrstöðuhæð fylgja langvarandi vestanáttir yfir Grænlandssundi og fyrir norðan Ísland sem þýðir að ísinn hrekst austur á bóginn í stað þess að renna sína leið suður með Grænlandi," segir Þór Jakobsson, veðurfræðingur og verkefnisstjóri sjó-, veður- og hafísþjónustu Veðurstofu Íslands.

Aðspurður segir Þór að búast megi við svona færi á u.þ.b. tíu ára fresti. Segir hann ísinn ekki jafnþéttan nú og hann var 1988, en þó ísinn sé dreifðari nú þurfi ekki mikið til til þess að hann sé fyrir fiskibátum á miðunum. Segir hann Veðurstofuna hafa sent út viðvörun til sjómanna fyrir hálfum mánuði að þeir vöruðu sig á ísnum.

Spurður um vindáttir næstu daga segir Þór allt líta út fyrir að áfram verði óhagstæð átt með tilliti til hafíss, þ.e. að það verði áfram suðvestan- og vestanátt sem þýðir að það bætist enn í ísinn norðvestur af Íslandi. "Svo er náttúrlega spurningin hvað verður um þann ís sem þegar hefur safnast saman úti fyrir landinu fram að helgi og í næstu viku. Það væri t.d. mjög slæmt ef við fengjum norðanátt því þá myndi ísinn berast enn nær landi," segir Þór, en tekur þó fram að engin slík átt sé sjáanleg í kortunum eins og er.