Tímarit Máls og menningar í nýjum (gömlum) búningi undir ritstjórn Silju Aðalsteinsdóttur heldur velli eftir upprisu á síðasta ári og nú er komið út 1. hefti 2. árgangs.

Tímarit Máls og menningar í nýjum (gömlum) búningi undir ritstjórn Silju Aðalsteinsdóttur heldur velli eftir upprisu á síðasta ári og nú er komið út 1. hefti 2. árgangs. Efnið er fjölbreytt, skáldskapur, ljóð og smásögur, bókmenntafræðigreinar og bókagagnrýni, greinar um tónlistarlífið og yfirlit ritstjórans um helstu menningarviðburði að hennar mati undanfarna mánuði ásamt viðtali við Bergljótu Jónsdóttur sem nýverið lét af störfum sem listrænn stjórnandi listahátíðarinnar í Björgvin í Noregi.

Ljóðaunnendur munu fagna því að birt er verðlaunaljóð Lindu Vilhjálmsdóttur úr samkeppninni um Ljóðstaf Jóns úr Vör sem afhentur var í janúar sl. Auk þess eru birt bæði ljóðin sem fengu sérstaka viðurkenningu við sama tækifæri, annað einnig eftir Lindu og hitt eftir Val Brynjar Antonsson.

Söguljóð borgarinnar nefnist grein eftir Katrínu Jakobsdóttur bókmenntafræðing sem sérhæft hefur sig í íslenskum glæpasögum. Í greininni rekur hún þróun borgarmyndar Reykjavíkur í íslenskum glæpasögum allt frá Húsinu við Norðurá sem kom út 1926 og var fyrsta íslenska glæpasagan í fullri lengd. Forsíðumynd tímaritsins er einmitt tileinkuð efni greinar Katrínar, en þar hefur Halldór Baldursson teiknað Erlend rannsóknarlögreglumann á gangi í Austurstræti.

Fróðlegt er viðtalið við Bergljótu Jónsdóttur, Bellu, sem stýrði Listahátíðinni í Bergen um níu ára skeið með miklum myndarbrag og gerði hana að einni þekktustu listahátíð á Norðurlöndum og víðar.

Í viðtalinu rekur Bergljót þá atburðarás sem varð til þess að hún lét af starfi sínu en hún var í framhaldinu skipuð í norska menningarráðið af Noregskonungi svo ljóst er að Norðmenn hafa metið störf hennar í Bergen að verðleikum þótt gustað hafi um hana.

Þrír risar er heiti greinar eftir Heimi Pálsson um hver áhrif Draumleikur Strindbergs hafði á Halldór Laxness og hvernig greina megi þau áhrif m.a. í Sjálfstæðu fólki. Einnig áhrif Hallgríms Péturssonar á Nóbelsskáldið. Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur skoðar sameiginleg einkenni á nokkrum skáldsögum síðasta árs undir yfirskriftinni Glæpur, refsing, ábyrgð.

Þá er birt smásagan Líf og önd, eftir ungan höfund, Arndísi Þórarinsdóttur, og segir þar frá undrun eiginmanns yfir taumlausri sorg eiginkonunnar þegar auðnuleysinginn fyrri maður hennar deyr óvænt. Skemmtileg saga þar sem vega salt kunnuglegur hversdagsleiki og óvæntur fáránleiki.

Auk verðlaunaljóðanna er í þessu hefti birt áður óbirt ljóð eftir hið ástsæla skáld Pál Ólafsson og bréf til Jóns ritstjóra bróður hans, en öld er nú liðin frá dauða Páls. Einnig eru birt ljóð eftir skáldin Geirlaug Magnússon, Kristian Guttesen, Svein Snorra Sveinsson og Ágústu Pétursdóttur Snæland sem fagnaði níræðisafmæli sínu á öskudaginn síðasta.

Bókagagnrýni er á sínum stað og Aðalsteinn Ingólfsson skrifar umsögn um Hvað er bakvið fjöllin?, minningabók Tryggva Ólafssonar listmálara, Kristján Jóhann Jónsson skrifar um Kaktusblómið og nóttina, ævisögu Jóhanns Sigurjónssonar eftir Jón Viðar Jónsson, Skafti Halldórsson skrifar um Bítlaávarp Einars Más Guðmundssonar og Davíð Stefánsson skrifar um Samkvæmisleiki Braga Ólafssonar. Helga Vala Helgadóttir ber saman jólasýningar Borgarleikhússins og Þjóðleikhússins og Jónas Sen rennir augum yfir tónlistarárið 2004.

Spennandi og fjölbreytt TMM og sannarlega full ástæða til að óska því velfarnaðar á nýju ári.