X-Drive var fyrst prófað í BMW X3-jepplingnum og reyndi brautin á grip hans í brekkum og einnig undir- og yfirstýringu eins og hérna sést.
X-Drive var fyrst prófað í BMW X3-jepplingnum og reyndi brautin á grip hans í brekkum og einnig undir- og yfirstýringu eins og hérna sést.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tölvubúnaður í nýjum bílum getur nú séð um hluti tengda akstrinum sem bílstjórinn þurfti áður að framkvæma. Búnaður þessi verður sífellt fullkomnari og um leið afskiptasamari svo að sumum þykir nóg um.

Tölvubúnaður í nýjum bílum getur nú séð um hluti tengda akstrinum sem bílstjórinn þurfti áður að framkvæma. Búnaður þessi verður sífellt fullkomnari og um leið afskiptasamari svo að sumum þykir nóg um. Einna þróaðastur er þó búnaður af þessu tagi í bílum frá BMW. Njáll Gunnlaugsson kynnti sér málið út við heimskautsbaug, við bæinn Rovaniemi í Finnlandi.

Hjá BMW er búnaðurinn tengdur fjöðrun, drifbúnaði, hemlum og vél og vinnur þetta allt saman að því að skapa sem öruggastan akstur. BMW býður nú upp á þann möguleika að fá tölvustýrða X-Drive fjórhjóladrifið úr X3 og X5 sem valbúnað í 5-línunni.

Búnaðurinn var kynntur fyrir skemmstu í Rovaniemi í Finnlandi. Aðstæður voru eins og best varð á kosið því að frostið fór niður í -28 gráður sem gaf rétta blöndu af gripi og hálku fyrir aksturinn.

Þrískipt skrikvörn

Fimm-línan notar í meginatriðum sama fjórhjóladrif og er í X3 og X5. Eini munurinn er að í stað drifkeðju á búnaðinum, sem dreifir aflinu til ásanna, er nú kominn tannhjólabúnaður. Þegar tekið er af stað er kúplingin lokuð upp að 20 km hraða að öllu jöfnu til að fá sem mest afl til afturhjólanna. Kerfið leitast svo við að minnka undir- og yfirstýringu með því að dreifa átakinu frá vélinni milli fram- og afturáss. Ef afturendinn byrjar að renna út úr beygjunni byrjar kúplingin að koma inn og sendir nú meira af aflinu til framhjólanna, en það hefur þau áhrif að hliðarálag á afturhjólin minnkar og bíllinn nær aftur stjórn. Þegar kerfið er tengt DSC-skrikvörninni skynjar tölvan í bílnum hættuna á þessu mjög snemma og framkvæmir þetta því áður en bílstjórinn er kominn yfir strikið. DSC-kerfið kemur þó ekki inn fyrr en að ekki er lengur mögulegt fyrir X-Drive-búnaðinn að redda málum. Þótt jafnvel sé slökkt alveg á DSC-kerfinu kemur það inn til að hjálpa þegar stigið er nógu fast á bremsur til að hemlalæsivörn taki við sér. Þótt DSC-kerfið sé þannig alltaf tiltækt er þó hægt að slökkva á því að hluta til. Er það gert með því einu að ýta á takka í mælaborði og verður þá aðeins DTC-spólvörnin virk, en hún er hluti af DSC-kerfinu. Í DTC-stillingunni fær bíllinn að leika meira lausum hala og til dæmis að renna meira út á hlið áður en að kerfið tekur völdin. Með því að halda svo takkanum inni í nokkrar sekúndur í viðbót slekkur DTC-kerfið einnig á sér þannig að bíllinn fær að spóla að vild, sem að sögn ökuþóra BMW getur verið nauðsynlegt við vissar aðstæður.

Íslandsvinur til leiðsagnar

Til að segja blaðamönnum, sem komnir voru víða að, hvernig haga bæri sér við aksturinn var kominn Íslandsvinurinn Rauno Aaltonen sem sá um að útskýra hvernig kerfið virkaði án DSC í X3 en til að sýna kerfið í 5-línunni var sonur hans, Tino Aaltonen, en hann hefur unnið til verðlauna í rallakstri líkt og faðir hans á árum áður. Aaltonen eldri kom til Íslands árið 2002 til að kenna íslenskum BMW-eigendum aksturstækni í boði B&L. Búið var að afmarka keilubrautir á frosinni Ounasjoki-ánni fyrir akstur á X3-jepplingnum en moka stóra kappakstursbraut fyrir akstur á 5-línunni enda gert ráð fyrir meiri hraða þar. Fengu blaðamenn þar að leika lausum hala á ísnum og prófa virkni X-Drive-kerfisins með og án DSC. Er það mikill kostur að hægt sé að slökkva á því í þrepum eftir aðstæðum og er BMW eini framleiðandinn sem býður upp á þann möguleika.

Nýjar og öflugar vélar

BMW notaði tækifærið og kynnti næstu kynslóð sex strokka línuvéla við þetta tækifæri. Munu þær koma á markað með vorinu, meðal annars í nýrri 3-línu. Í 5-línunni koma þær í 523, 525 og 530. Vélarnar hafa bæði bætt við afl og tog en eru samt 10% sparneytnari en áður. Einnig hefur hönnuðum BMW tekist að létta þær töluvert með því að nota meira af áli og magnesíum í vélarhluti. Í 523 stækkar vélin úr 2,2 lítrum í 2,5 en það þýðir 20 Nm meira tog og aukningu um sjö hestöfl. Þriggja lítra vélin bætir við sig 27 hestöflum og fer þannig upp í 258 hestöfl.