BIKARMEISTARAR Njarðvíkinga í körfuknattleik tefla fram tveimur nýjum erlendum leikmönnum í úrslitakeppninni, sem er fram undan.

BIKARMEISTARAR Njarðvíkinga í körfuknattleik tefla fram tveimur nýjum erlendum leikmönnum í úrslitakeppninni, sem er fram undan. Stjórn körfuknattleiksdeildar félagsins ákvað í gær að segja upp samningum við Bandaríkjamennina Matt Sayman og Anthony Lackey og verða skörð þeirra fyllt með nýjum útlendingum.

Við erum meðvitaðir að tímasetningin er ekki kjörin en það var nú eða aldrei að fara út í þessar aðgerðir. Sayman og Lackey hafa gert margt gott en leiðin hefur legið niður við hjá þeim báðum síðustu vikurnar og það hefur bitnað á liðinu. Við vitum vel að við tökum áhættu - en við stöndum og föllum með ákvörðun okkar," sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga, sem tefldi fram alíslensku liði gegn Haukunum í lokaumferð úrvalsdeildarinnar, Intersportdeildinni, í gærkvöldi.

Einar Árni segist vonast til að búið verði að fylla skörð þeirra Saymans og Lackey um helgina og að nýju mennirnir verði komnir á fullt þegar úrslitakeppnin hefst.

"Ég vil taka það skýrt fram að Sayman og Lackey eru eðaldrengir og topppersónuleikar og auðvitað var erfitt að þurfa að gera þetta gagnvart þeim. Við erum hins vegar að fara út í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn og þar dugar ekki að vera með óstöðugleika. Lackey er ekki sú tegund af leikmanni sem hentar okkur og Sayman hefur verið óstöðugur," sagði Einar Árni.

Sayman gekk í raðir Njarðvíkinga fyrir tímabilið. Hann lék 21 leik á Íslandsmótinu, skoraði að meðaltali 13,4 stig, tók 5,7 fráköst og átti 7 stoðsendingar en Lackey, sem leysti Troy Wiley af hólmi, lék 16 leiki, skoraði að meðaltali 14,4 stig, tók 5,7 fráköst og átti 1,8 stoðsendingar.