Víkverja létti stórlega þegar hann las í gær á Morgunblaðsvefnum, haft eftir aðstoðarforstjóra hjá Renault, að stærð bíla væri ekki lengur til marks um þjóðfélagsstöðu eigandans.

Víkverja létti stórlega þegar hann las í gær á Morgunblaðsvefnum, haft eftir aðstoðarforstjóra hjá Renault, að stærð bíla væri ekki lengur til marks um þjóðfélagsstöðu eigandans. "Fram til þessa hafa bílaframleiðendur einfaldlega boðið upp á ákveðnar stærðir af bílum, frá smábílum til stórra bíla. Þeir endurspegluðu þjóðfélagsstöðu. Því stærri bíl sem maður átti því mikilvægari eða ríkari var maður," var þar haft eftir Yves Dubreil. Hann bætti því við að þetta yrði brátt liðin tíð - bílarnir endurspegluðu lífsstíl fólks og hann væri sannarlega margbreytilegur.

Víkverja var auðvitað létt af því að hann ekur sjálfur um á pínulitlum bíl og hefur fengið að heyra það frá vinum og kunningjum að bíllinn gefi umheiminum kolvitlaus skilaboð. Bíllinn endurspegli t.d. engan veginn að Víkverji sé karlkyns, í góðu starfi og með laun sem hann gerir sig nokkuð ánægðan með. Nú er von til þess að félagar Víkverja lesi fréttina á vefnum og átti sig á því að Víkverji er bara að undirstrika lífsstíl sinn með þessum bíl. Víkverji vill hvorki ganga á umhverfið né eigin sjóði umfram það sem nauðsynlegt er, hann þarf ekki fjórhjóladrif og breið dekk til að finnast hann vera karlmaður og lítur svo á að hagkvæmur smábíll sé til marks um að hann sé bara talsvert séður í fjármálum - enda eru "borgarjepparnir" sem nú eru auglýstir grimmt auðvitað ekkert annað en mjög dýrar yfirhafnir.

Hér á landi virðist hins vegar ríkjandi einhvers konar nauðhyggja um það að um leið og fólk kemst í sæmilega stöðu - eða jafnvel löngu áður en það kemst í slíka stöðu - verði það að kaupa sér risavaxinn jeppa á bílaláni til að geta sýnzt menn með mönnum. Í einhverjum tilfellum er Víkverji hræddur um að slíkur lífsstíll geti mjög snögglega lækkað þjóðfélagsstöðu manna til muna - þ.e. sett þá á hausinn.