Björn Þórarinn Þórðarson
Björn Þórarinn Þórðarson
Eftir Braga Ásgeirsson

ÞEIM fækkar óðum sem nefna mætti hrygglengju um stuðning við íslenska myndlist á síðustu öld og komu úr öllum kimum þjóðfélagsins. Þetta voru sjálfstæðir einstaklingar sem báru hag og ris íslenskrar þjóðmenningar fyrir brjósti, sönkuðu jafnt að sér listaverkum, handíðum, bókmenntum og þjóðlegum fróðleik. Mættu á allar mikils háttar sýningar, ef ekki á opnanir þá næstu daga á eftir, og stóðu lengi við. Frá löngu liðnum tíma er mér í ljósu minni að ekki svo fáir litu inn á fyrstu klukkutímunum í þeim tilgangi helstum að fá listamennina til að skrifa á boðskortið, gildir alltaf, hurfu svo á braut. Hagnýttu svo út í æsar og voru yfirleitt mættir strax daginn eftir til að skoða í betra næði, komu sumir aftur og aftur, lánuðu jafnvel kortin. Þetta var líka á þeim dögum er ungar og eignalausar listspírur héldu viðamiklar sýningar, hættu öllu til í hæpið spil, lífi og limum að segja má. Engin voru fyrirtækin sem styrktu framkvæmdirnar, því síður opinberir aðilar, stórhugurinn eini kraftbirtingurinn.

Þetta og margt fleira kom upp í hugann er mér bárust fréttirnar af andláti Björns Þ. Þórðarsonar, háls-, nef- og eyrnalæknis, sem borinn verður til moldar í dag. Einkum vegna þess að á undanförnum árum voru þeir Björn og góðvinur hans, Einar G. Baldvinsson listmálari, mér kunnugir, en ég hitti þá oftast og óforvarendis á sunnudagsflakki mínu milli sýninga á höfuðborgarsvæðinu. En nú eru þeir báðir horfnir til feðra sinna, Einar lést í apríllok á liðnu ári, inniber að enn hefur reglulegum sunnudagsgestum í sýningarsali borgarinnar fækkað um tvo. Raunar voru þeir félagar stundum mættir á fyrsta degi en helst þegar liðið var á opnunina, hvorugum gefið um margmenni og þá einkum málaranum. Hins vegar var læknirinn gleðimaður í aðra röndina, einn þeirra sem ekki eru jafnaðarlega haldnir þrúgandi strangleika né öfgafullri alvöru, heldur hafna engu í lífi sínu, sem ánægju og gleði getur veitt, ef það samrýmist hinum göfga og réttsýna skilningi þeirra, eins og húmanistinn Phillipp Melanchton, aðalsamstarfsmaður Marteins Lúthers, orðaði það um Albrecht Dürer.

Tilvitnunin á vel við Björn því utan vinnutíma upptendraðist hann engan veginn aðeins af inntöku ódáinsveiga, heldur allt eins jarðtengdari gleði og lífsnautn við að sanka að sér mikilsháttar ritverkum, listaverkum, listíðum og frímerkjum. Hafði lengi greint þennan sérstæða persónuleika úr fjarlægð án þess að vita deili á honum, sennilega minna en aldarfjórðungur síðan við tókum fyrst tal saman og réðu tilviljanir mestu um samskipti okkar er fram liðu stundir, þó með nokkrum undantekningum. Ekki voru samskipti okkar náin, en kom nokkur skipti til hans heima á Sörlaskjólið þar sem hann átti sér einkaheim í kjallaranum, með bókum sínum, málverkum og annarri virkt. Lækninum ekki gefið að trana sér fram á opinberum vettvangi með hugðarefni sín en hélt þó eina málverkasýningu. Skeði í einni heimsókninni að hann tók fram fjölda eigin myndverka og sýndi mér, með hálfum huga þó, og svo fljótt gekk þetta stundum fyrir sig að sum þeirra greindi ég einungis rétt í sjónhendingu áður en hann var kominn með það næsta. Var í þá veru stórum dómharðari sjálfum gagnrýnandanum, sem hann hafði kallað til sín til að kreista út úr honum umsögn um myndverkin. Mál að slíkir eru oftar en ekki gæddir öllu meiri hæfileikum hinum sem uppnumdir eru af innstæðulausri snilli sinni frá byrjunarreit, svo allt annað og flóknara mál hvernig gáfan nýtist á leiðinni á myndflötinn.

Þetta kvöld var Birni einhvern veginn mjög í mun að ég færi aftur að mála, ekki svo að ég væri hættur, en hafði um árabil helst glímt við fundna hluti, efnislega dýpt og rúmtak. Til frásagnar er heim skyldi haldið að Lilja kona hans, sem allan tímann hafði dundað sér við hannyrðir uppi á hæðinni og tók ekki annað í mál en að aka mér heim, áréttaði málflutning eiginmannsins. Hin gerðarlega kona var afar opin og viðtalsgóð, svo ekki er örgrannt um að þau hjónin eigi einhvern þátt í því að ég tók aftur að snúa mér að öllum litaskalanum og nú á tvívíðum grunni.

Björn Þórarinn Þórðarson var gagnmenntaður, langt út fyrir allar almennar prófgráður, og fylgdist grannt með því sem var að gerast í list og mennt, var í raun eina hliðin á manninum sem ég kynntist af einhverju ráði. Virkur fulltrúi bestu gilda íslenskrar þjóðmenningar á seinni hluta síðustu aldar, einn í hópi þeirra góðu og heilu drengja sem auðguðu umhverfi sitt og gerðu þá ríkari sem þeir bundust vináttu eða kunnskap við. Gat verið á báðum áttum og var um sig, næstum hrjúfur, en einnig gæddur sérstæðum húmor og átti það til að skella stórkarlalega uppúr er hann sá óvæntar og spaugilegar hliðar á tilverunni. Afar verðmætur og traustur bakhjarl vini sínum Einari G. Baldvinssyni, einfara sem helst læddist með veggjum, ásamt því að vera elskur að konu sinni Lilju Ólafsdóttur sem átti við þungbær veikindi að stríða í áratug áður en hún lést hinn 11. desember á liðnu ári. Var þá að litlu að hverfa og árin orðin mörg.

Horfinn er af mannlífsvettvangi sannur og gagnmerkur Íslendingur, að slíkum ávallt sjónarsviptir.