Tengdi Fáskrúðsfjörð og Frakkland vináttuböndum Albert Denvers fagnar 100 ára afmæli í Gravelines.
Tengdi Fáskrúðsfjörð og Frakkland vináttuböndum Albert Denvers fagnar 100 ára afmæli í Gravelines. — Morgunblaðið/Albert Kemp
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fáskrúðsfjörður | Fáskrúðsfirðingar hafa frá árinu 1989 haft vinabæjarsamband við bæinn Gravelines í Norður-Frakklandi, en þar búa um 15 þúsund manns.

Fáskrúðsfjörður | Fáskrúðsfirðingar hafa frá árinu 1989 haft vinabæjarsamband við bæinn Gravelines í Norður-Frakklandi, en þar búa um 15 þúsund manns. Er þetta tilkomið vegna mikilla samskipta Fáskrúðsfirðinga og sjómanna frá Bretagneskaga, þegar farið var á fiskimiðin við Ísland og ein af fáum aðalbækistöðvum frönsku skútnanna var á Fáskrúðsfirði.

Steinþóri Péturssyni, sveitarstjóra í Austurbyggð, var á dögunum boðið út til Gravelines í hundrað ára afmæli Albert Denvers. Denvers, Elín Pálmadóttir rithöfundur og blaðamaður og þáverandi sveitarstjórn Búðahrepps voru frumkvöðlar að stofnun vinabæjarsambands Fáskrúðsfirðinga og íbúa Gravelines. Auk Steinþórs fóru kona hans Guðný Elísdóttir, Albert Kemp og Þórunn Pálsdóttir í ferðina.

"Tilefni ferðarinnar var að Denvers, sem var bæjarstjóri Gravelines þegar vinabæjarsamskiptunum var komið á, þá nokkuð við aldur, varð hundrað ára 21. febrúar sl.," sagði Steinþór í samtali við Morgunblaðið. Samskiptunum við Gravelines er þannig háttað að Fáskrúðsfirðingar sækja Gravelines heim í september, en um það leyti voru frönsku skúturnar að koma í heimahöfn af Íslandsmiðum. Frakkarnir koma svo til Fáskrúðsfjarðar á Franska daga sem haldnir eru að sumarlagi.

Kvaddir fyrir ferðina á Íslandsmið

"Við mættum mikilli gestrisni eins og alltaf þegar við förum þarna út," segir Steinþór. "Núna var, auk afmælisins, í gangi hjá þeim árleg hátíðasería sem tekur fjórar helgar og gengur að hluta til út á að á þessum tíma árs var verið að kveðja þá sem fóru á skútunum til Íslands. Þeir fóru yfirleitt um mánaðamótin febrúar/mars. Það er því gert töluvert úr þessu og það sem kom manni á óvart var hversu ríkt þetta er í fólkinu í Gravelines. Það veit vel af Íslandi og Fáskrúðsfirði. Til dæmis á siglingakeppnin frá Frakklandi til Íslands að vissu leyti grunn í þessari sögu."

"Okkur var tekið með kostum og kynjum og sofnuðum við það sem við þurftum með og vöknuðum við það líka," segir Albert Kemp, en hann var árið 1998 sæmdur frönskum riddarakrossi vegna aðkomu sinnar að vinabæjarsamstarfinu. "Þetta fólk er afskaplega gott heim að sækja enda held ég að það sé nú dekrað við það hérna líka. Á milli þessara tveggja staða er býsna sterkur þráður.

Ég hafði mjög gaman af að vera þarna því ég hitti svo marga sem ég hef ekki séð í fimmtán ár. Ég var einn af þeim sem fyrst fóru þarna út."

Miklir höfðingjar í boðinu

Denvers er hátt skrifaður að sögn þeirra Steinþórs og Alberts.

"Hann var í stríðinu og svo í pólitík sem sósíaldemókrati allt sitt líf," segir Albert. "Hann sat á franska þinginu og var boðið ráðherrasæti en hafnaði því. Vildi bara vera með sínu fólki þarna norður frá og kærði sig ekkert um að flytja til Parísar. Hann var fylkisstjóri 18 sveitarfélaga og bæjarstjóri Gravelines í fjölda ára. Karnivalið var haldið á hverju ári í tilefni af því að sjómennirnir voru að fara til fiskveiða við Ísland. Þeir fengu að rasa út þarna í einhverja daga, tvo eða þrjá og þetta kemur akkúrat inn á afmælið hjá gamla og því var þessu öllu slegið saman."

Það voru allskyns merkismenn í boðinu hjá Denvers fyrir utan þá Steinþór og Albert og þeirra konur. "Minnstu ekki á það, þarna voru miklir höfðingar," segir Albert. "Afmælisboðið var heilmikið dæmi og gamli maðurinn greinilega mikils metinn í pólitík. Þeir voru með móttöku fyrir hann í Dunkerque og þar voru formenn og bæjarstjórar af svæðinu, pólitískir félagar, formaður sósíaldemókrataflokksins sem er jafnframt forsetaefni flokksins og fv. fyrsti ráðherra, sem væri ígildi forsætisráðherra hér." Eftir formlega móttöku í Dunkerque, þar sem Denvers var sæmdur orðu frá Jacques Chiraq Frakklandsforseta, var boðið til eiginlegrar afmælisveislu í Gravelines og þar m.a. opnuð sýning á ævistarfi Denvers.

Menn muna Albert enn

"Við heilsuðum aðeins upp á gamla manninn og það var greinilegt að honum þótti vænt um að Íslendingarnir höfðu ekki gleymt honum og mætt á svæðið til að heilsa upp á hann á þessum tímamótum," segir Steinþór. "Hann er það gamall að þegar síðustu skúturnar eru að fara héðan frá Íslandi er hann milli tvítugs og þrítugs. Hann þekkir þessa sögu því af eigin raun."

Steinþór segir eitthvað af Íslendingum búsett á Gravelinessvæðinu, og flestir hafi þekkt Ragnar Óskarsson handboltamann sem spilar með Dunkerque. Menn mundu líka eftir Albert Guðmundssyni úr boltanum.

"Þetta er reyndar sérstakt og að mörgu leyti skemmtilegt," segir Steinþór um samskiptin við Gravelines. "Samskipti bæjanna eru töluverð allt árið og til dæmis voru í gangi ungmennaskipti fyrir nokkrum árum. Við höfum stundum verið að gæla við að koma á hópferð út, til að heimsækja Gravelines á Íslandsdögunum í september. Þá myndi fólki gefast kostur á að sjá þetta með eigin augum og finna af eigin raun hvaða tengsl eru þarna út. Svo heyrði ég á þeim úti núna að það er í umræðunni að koma með hóp í sumar til Íslands og koma þá við hér á Fáskrúðsfirði á Frönskum dögum."