Páll Pétursson
Páll Pétursson
Páll Pétursson fjallar um stofnun textílseturs á Blönduósi: "Á textílsetrinu er áformuð rannsóknarstarfsemi í samvinnu við háskólastofnanir fyrir háskólanema, innlenda og erlenda, í listum, þjóðfræði, fornleifafræði, forvörslu, ferðamálum og sögu."

MÁNUDAGINN 7. mars nk. verður haldinn í Félagsheimilinu á Blönduósi stofnfundur sjálfseignarstofnunar um rekstur Textílseturs Íslands. Hefst fundurinn klukkan 14.

Á íslensku er ekkert heppilegt orð yfir hugtakið "textíl" en skárst er e. t. v. orðið "þráðlist". Textíll er fyrst og fremst listiðnaður og/eða framleiðsla úr einhverskonar þræði.

Fyrir nokkrum áratugum var handmennt hvað textíl varðar miklu almennari en nú er.

Þá kunnu t.d. allar konur til prjónaskapar og margir karlar. Nú er fjöldi fólks sem ekkert hefur þjálfast í prjónaskap, vefnaði eða saumaskap. Þetta er mikil afturför. Það hefur menningarsögulegt gildi að hafa í heiðri fornar listgreinar og viðhalda þekkingu á því sviði. Hér vantar fræðslu og menningarsetur þar sem kostur gæfist á rannsóknum, listsköpun og fræðslu um textíl. Brýnt er að varðveita menningararfinn og áhugi textílfólks hér og erlendis er fyrir hendi.

Það er mat hóps sem hefur unnið að undirbúningi textílseturs að réttast sé að velja því stað á Blönduósi. Til þess eru margar ástæður. Húnvetningar voru í fararbroddi með nám fyrir stúlkur og á Blönduósi var rekinn kvennaskóli af miklum myndarskap um langan aldur. Kvennaskólahúsið stendur nær autt, en það mundi henta vel undir textílsetur með dálitlum endurbótum. Blönduós er á sauðfjárræktarsvæði og þar er eina ullarþvottastöð landsins og nokkur framleiðsla textílvara. Þá er að geta þess að á Blönduósi er stórmerkilegt heimilisiðnaðarsafn, hið eina í landinu, og þar er varðveitt einstök handavinna frá fyrri tíð. Í samstarfi við heimilisiðnaðarsafnið gæfist einstakt tækifæri til textílrannsókna.

Á textílsetrinu er áformuð rannsóknarstarfsemi í samvinnu við háskólastofnanir fyrir háskólanema, innlenda og erlenda, í listum, þjóðfræði, fornleifafræði, forvörslu, ferðamálum og sögu. Þá er stefnt að námskeiðum fyrir framhaldsskólanema á listnámsbrautum og skólabúðum fyrir grunnskólakennara. Vinnuaðstaða verður til listsköpunar og handverks.

Undirbúningshópurinn hefur leitað til ýmissa einstaklinga, félaga og stofnana um aðild að sjálfseignarstofnuninni. Allir þeir sem áhuga hafa á textíllist og handverksmenningu eru velkomnir á stofnfundinn á mánudaginn. Stofnframlög, styrkir og minningargjafir um textíllistafólk eða aðra velunnara handverksmenningar eru vel þegin.

Stefnt er að því að textílsetrið hefji starfsemi á þessu ári.

Páll Pétursson fjallar um stofnun textílseturs á Blönduósi

Höf.: Páll Pétursson fjallar um stofnun textílseturs á Blönduósi