HÆSTIRÉTTUR dæmdi í gær mann í fimm mánaða fangelsi fyrir hraðakstur og fyrir að aka sviptur ökurétti en hann var handtekinn eftir að hann ók á 57 km hraða um Álfhólsveg.

HÆSTIRÉTTUR dæmdi í gær mann í fimm mánaða fangelsi fyrir hraðakstur og fyrir að aka sviptur ökurétti en hann var handtekinn eftir að hann ók á 57 km hraða um Álfhólsveg. Refsiþyngdin skýrist af því að maðurinn hefur ítrekað ekið ölvaður og án ökuréttinda og hlotið fjölda dóma fyrir slíkt.

Eftir að lögregla mældi hraða hans gaf hún honum merki um að stöðva aksturinn sem hann gerði ekki heldur jók hraðann og taldi lögregla ljóst að ökumaðurinn hygðist komast undan. Hann reyndi síðan að komast undan á hlaupum en datt og eftirleikurinn var því auðveldur fyrir lögreglu. Maðurinn viðurkenndi að hafa ekið sviptur ökuréttindum en gerði athugasemdir við hraðamælingar lögreglu en Hæstiréttur taldi þær fullgildar.

Auk fangelsisrefsingar þarf hann að greiða 245.000 krónur í málsvarnarlaun Hilmars Ingimundarsonar hrl. Málið dæmdu Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari sótti málið.