Nýleg gervitunglamynd sýnir vel hve óvenju snjólétt er á Íslandi um þessar mundir.
Nýleg gervitunglamynd sýnir vel hve óvenju snjólétt er á Íslandi um þessar mundir.
ÓVENJU snjólétt er víðast hvar á landinu. Færð er með besta móti og ýmsir vegir, sem venjulega eru lokaðir á þessum árstíma, eru opnir nú. Svo virðist sem ekki hafi verið jafnsnjólétt á Akureyri í febrúar síðan 1932, en 1965 var álíka snjólétt og nú.

ÓVENJU snjólétt er víðast hvar á landinu. Færð er með besta móti og ýmsir vegir, sem venjulega eru lokaðir á þessum árstíma, eru opnir nú.

Svo virðist sem ekki hafi verið jafnsnjólétt á Akureyri í febrúar síðan 1932, en 1965 var álíka snjólétt og nú. Þannig varð ekki alhvítt á Akureyri nema þrjá daga og mesta snjódýpt þar mældist 5 cm. Í Reykjavík var alhvítt 11 daga og snjódýpt mest 10 cm, að því er segir í stuttu tíðarfarsyfirliti Trausta Jónssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Hretin eru eftir

Færð er óvenju góð um allt land. T.d. eru fjallvegir á Vestfjörðum, eins og Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði, opnir og eins er auður vegur norður í Norðurfjörð á Ströndum. Eins er Lágheiði, milli Fljóta og Ólafsfjarðar opin. Valdís Eiríksdóttur, vaktstjóri í vegaeftirliti Vegagerðarinnar, segir þetta óvenju góða færð um mánaðamót febrúar og mars. Fyrrnefndir fjallvegir á Vestfjörðum voru opnaðir í síðustu viku. Þar dregur í skafla sem teppa færð, en í ljósi góðs veðurútlits var ákveðið að opna. Taldi Valdís að ef veður héldist jafngott áfram mætti búast við að aðrir fjallvegir opnist fyrr en venjulega.

Ólafur Torfason vegaeftirlitsmaður hefur starfað hjá Vegagerðinni í tæp 50 ár og við vegaeftirlit frá 1985. Hann sagði færðina óvenju góða núna, en það sé ekki einsdæmi. Færðin hafi verið leiðinleg í janúar þegar snjóaði og gekk á með éljum. Talsverð ófærð var þá um landið. Nú sé hins vegar fært um nær alla vegi landsins. "Þetta getur ekki betra verið, það er sama hvar maður ber niður," sagði Ólafur. "Nú er bara hvort eitthvað bætir í. Páskarnir eru eftir og öll þessi gömlu hret, eins og hrafnahretið sem er í apríl. Þá getur þyngt á þessu aftur. Það má búast við ýmsu í veðráttu Íslands."

Hiti yfir meðallagi

Samkvæmt tíðarfarsyfirliti Trausta Jónssonar var mjög hlýtt í veðri fyrstu daga febrúar, sem og síðasta þriðjung hans, en nokkuð kuldakast gerði þar á milli, Meðalhiti í Reykjavík mældist 1,5 stig og er það 1,1 stigi yfir meðallagi. Á Akureyri var meðalhitinn 0,8 stig sem er 2,3 stigum yfir meðallagi. Á Hveravöllum var meðalhitinn -4,4 stig og er það 1,6 stigi yfir meðallagi. Í Akurnesi mældist meðalhitinn 0,7 stig.

Úrkoma var allmikil um suðvestan- og vestanvert landið, en þurrviðrasamt var í öðrum landshlutum. Úrkoma í Reykjavík mældist 105 mm og er það 46% umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman aðeins 11 mm, það er fjórðungur meðalúrkomu þar og hið minnsta í febrúar síðan 1986, en þá mældist úrkoma á Akureyri aðeins 1 mm. Í Akurnesi mældist úrkoman 30 mm, þar af féll meira en helmingur á einum degi. Mælingar hafa verið gerðar í Akurnesi frá 1992, en trúlegt er að þetta sé minnsta febrúarúrkoma á þessum slóðum síðan 1965, en þá mældist úrkoman í Hólum aðeins 4 mm.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 38 og er það 14 stundum undir meðallagi. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 54 og er það 18 stundum yfir meðallagi.