[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
STÖÐ 2, sem sýnir Íslensku stjörnuleitina eða Idol , og Fremantle Media, sem er rétthafi vörumerkisins á heimsvísu, hafa gert umboðsmannasamning við Einar Bárðarson og fyrirtæki hans Concert vegna sigurvegara Stjörnuleitarinnar í ár.

STÖÐ 2, sem sýnir Íslensku stjörnuleitina eða Idol , og Fremantle Media, sem er rétthafi vörumerkisins á heimsvísu, hafa gert umboðsmannasamning við Einar Bárðarson og fyrirtæki hans Concert vegna sigurvegara Stjörnuleitarinnar í ár.

Hlutverk Einars verður samkvæmt samningi að stjórna ímyndar-, viðburða- og útgáfumálum fyrir sigurvegarann sem valinn verður þann 11. mars næstkomandi. Nú eru þrír keppendur eftir, þau Aðalheiður "Heiða" Ólafsdóttir, Davíð Smári Harðarson og Hildur Vala Einarsdóttir.

Einar, sem hefur náð góðum árangri með Nylon-hópinn, staðfestir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi verið ráðinn til þessara starfa.

"Það sem menn eru að horfa í er að þegar það er búið að skapa einhverri manneskju nafn er það orðið eins og hvert annað vörumerki.sem þarf að viðhalda, passa og gæta," segir Einar. "Það er í raun auðveldara að eyðileggja þessa hluti með því að spila rangt úr þeim spilum sem eru á hendi. Þeir þrír aðilar sem eftir eru hafa nú öðlast heimsfrægð á Íslandi eins og sagt er og ég hef verið að hitta þau að undanförnu og hef verið að búa þau undir það sem í vændum er. Ég mun svo einbeita mér að því koma ferli siguvegarans í gang, leiðbeina viðkomandi og hjálpa honum að viðhalda orðspori sínu og auka við það með öllum tiltækum ráðum. Sú vinna er reyndar þegar hafin."

Einar segir ekkert sjálfgefið í þessum efnum, tveir plús tveir séu ekki alltaf fjórir í þessum bransa.

"Þannig að ég mun skoða hvað hentar best þeim sem mun sigra, enda er ólíkt fólk hér á ferðinni. Það þarf að sníða stakk eftir vexti."

Skífan mun svo gefa út plötu strax í sumar með sigurvegaranum, sem innhalda mun tökulög. Einar segist ekki hafa kynnt sér þessa útgáfuáætlun Skífunnar en að því komi.