Stuðningsmenn Abu Bakar Bashir komu saman fyrir utan dómshúsið í Jakarta þegar dómur var kveðinn upp.
Stuðningsmenn Abu Bakar Bashir komu saman fyrir utan dómshúsið í Jakarta þegar dómur var kveðinn upp. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MÚSLÍMAKLERKURINN Abu Bakar Bashir í Indónesíu hefur verið fundinn sekur um að hafa átt aðild að samsæri um sprengjutilræði á Bali í október árið 2002 en 202 létu lífið í sprengingunum, þar á meðal margir erlendir ferðamenn.

MÚSLÍMAKLERKURINN Abu Bakar Bashir í Indónesíu hefur verið fundinn sekur um að hafa átt aðild að samsæri um sprengjutilræði á Bali í október árið 2002 en 202 létu lífið í sprengingunum, þar á meðal margir erlendir ferðamenn. Hann var hins vegar sýknaður af ákæru um aðild að sprengjuárás á Mariott-hótelið í höfuðborginni Jakarta árið 2003, en þar fórust 12 manns. Klerkurinn, sem er 66 ára gamall, hlaut tveggja og hálfs árs fangelsisdóm.

Saksóknarar höfðu krafist átta ára dóms hið minnsta. Fréttaritari BBC í Jakarta sagði dóminn teljast tiltölulega mildan en ljóst hafi verið fyrirfram að erfiðlega myndi ganga að færa sönnur á sekt klerksins. Bashir brosti breitt þegar hann var leiddur út úr réttarsalnum. Hann neitar sakargiftum og er búist við því að hann muni áfrýja dómnum. Lögmenn hans segja réttarhöldin tilraun stjórnvalda til þess að blíðka Bandaríkjamenn sem vilji hindra klerkinn í að berjast fyrir því að lög íslams verði látin gilda í Indónesíu. Mikill meirihluti landsmanna er íslamstrúar en mjög fáir aðhyllast ofsatrú.

Viðbrögð stjórnvalda í Ástralíu voru neikvæð, þeim fannst dómurinn of vægur. 88 Ástralir létu lífið í árásinni á Bali 2002. Bandaríkjamenn gagnrýndu einnig dóminn.

"Við virðum sjálfstæði dómstóla í Indónesíu og fögnum því að þekktur hermdarverkaleiðtogi skuli vera dæmdur," sagði talsmaður bandaríska sendiráðsins. "En þegar haft er í huga hve alvarleg brotin voru sem hann var sakfelldur fyrir veldur það vonbrigðum hve fangelsisvistin verður stutt."

Klerkurinn var dæmdur fyrir aðild að sprengjutilræðunum á Bali með vísan til glæpalöggjafar en ekki samkvæmt lögum gegn hryðjuverkum sem tóku gildi eftir árásirnar 2002. Bashir hefur áður farið fyrir dóm vegna ásakana um að hann stjórni á laun herskáum hópi sem nefnist Jemaah Islamiah (JI) - hann var hins vegar sýknaður af þessum ákærum vegna skorts á sönnunargögnum. Bandaríkjamenn segja að JI tengist al-Qaeda, hryðjuverkasamtökum Osama bin Ladens.

Dewi Fortuna Anwar, sem starfar hjá hugveitunni Habibie í Jakarta, sagði leyniþjónustumenn erlendra ríkja hafa sannfært stjórnir sínar um sekt Bashirs, að hann sé andlegur leiðtogi Jemaah Islamiah. En ekki væri hægt að nota gögn af því tagi í málaferlum gegn meintum hryðjuverkamönnum. Að sögn BBC olli það einnig vanda að mótsagnir voru í framburði sumra vitna gegn Bashir.

Jakarta. AFP, AP.

Jakarta. AFP, AP.

Höf.: Jakarta. AFP, AP