HÆSTIRÉTTUR klofnaði í gær í afstöðu sinni til ákæru um líkamsárás.

HÆSTIRÉTTUR klofnaði í gær í afstöðu sinni til ákæru um líkamsárás. Meirihluti dómsins felldi niður refsingu og vísaði til lagaákvæðis um að refsingu megi lækka eða fella niður ef sá sem brotið framdi gerði það í mikilli reiði eða geðhræringu sem brotaþoli varð valdur að með ólögmætri árás eða stórfelldri móðgun. Í þessu tilviki sagðist árásarmaðurinn hafa fundið fyrir svo miklum sársauka þegar annar maður greip um hreðjar hans að hann hefði brugðist þannig við að snúa hann niður.

Þar sem maðurinn hlaut slæmt handleggsbrot var ákært og dæmt fyrir alvarlega líkamsárás. Árásin var framin á skemmtistað í Hafnarfirði aðfaranótt 20. september 2003. Árásarmanninum og vitnum bar ekki að öllu leyti saman um málsatvik en þau munu öll hafa verið undir áhrifum áfengis greint sinn. Hann lýsti því svo að maðurinn hefði að tilefnislausu gripið svo harkalega um hreðjar sér og að hann hefði fundið til mikils sársauka. Hann hefði brugðist við með því að taka manninn hálstaki í þeim tilgangi að snúa hann niður eða halda honum uns hann sleppti takinu. Maðurinn sagðist á hinn bóginn hafa tekið laust um hreðjar árásarmannsins til að fá hann til að hætta að áreita konu. Hann hefði verið búinn að sleppa takinu þegar ráðist var á hann.

Of harkalegt

Hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson töldu að þar sem mennirnir væru einir til frásagnar um aðdraganda árásarinnar yrði að miða við þann framburð árásarmannsins að hreðjatakið hefði valdið honum skyndilegum sársauka. Miðað við málsatvik væru því forsendur til að fella niður refsingu.

Hæstaréttardómarinn Ingibjörg Benediktsdóttir var því ósammála og skilaði sératkvæði þar sem hún segir að engin efni séu til þess að fella refsingu hans niður. Ákvæði um að árásin hefði verið framin í geðshræringu eða reiði ættu ekki við. Viðbrögðin hefðu verið of harkaleg og taldi Ingibjörg rétt að staðfesta niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness um 30 daga fangelsi. Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari sótti málið en Karl Georg Sigurbjörnsson hrl. var til varnar.