FORVARNARSTARF gegn vímuefnanotkun unglinga hefur skilað verulegum árangri og hafa bæði áfengisdrykkja og hassreykingar dregist verulega saman frá árinu 1997.

FORVARNARSTARF gegn vímuefnanotkun unglinga hefur skilað verulegum árangri og hafa bæði áfengisdrykkja og hassreykingar dregist verulega saman frá árinu 1997. Þetta er niðurstaða úttektar á forvarnarstarfi Reykjavíkurborgar á árunum 1997-2003 sem kynnt var á ráðstefnu í Ráðhúsinu í gær.

Inga Dóra Sigfúsdóttir, hjá Rannsóknum og greiningu og forseti kennslufræði- og lýðheilsudeildar Háskólans í Reykjavík, minnti á að árið 1997 hefðu rannsóknaraðilar og þeir sem bæru ábyrgð á stefnumótun ákveðið að hefja markvisst forvarnarstarf byggt á traustum rannsóknum til að draga úr neyslu vímuefna. Á þessum tíma hefðu menn staðið frammi fyrir því að vímuefnanotkun hafði aukist allan tíunda áratuginn og var svo komið að íslenskir unglingar voru í hópi þeirra sem neyttu áfengis hvað oftast.

Bæði hefur dregið úr reykingum og áfengisneyslu

Inga Dóra sagði að starfið hefði skilað árangri og benti á að skv. rannsókn hefði drykkja minnkað úr 44% árið 1998 í 26% árið 2004, reykingar dregist saman úr 23% í 12% og hassneysla minnkað úr 21% í 14% á sama tímabili.

Hlutfall tíundu bekkinga sem drykkju hefði minnkað úr 21% árið 1997 í 14% árið 2004. Þetta væri talsvert frábrugðið þróuninni erlendis þar sem neyslan hefði ýmist aukist eða staðið í stað.

Inga Dóra sagði að þó að vægi jafningjahópsins ykist með aldri barna væri hlutverk foreldra greinilega mikilvægt. Eftirlit foreldra drægi úr hættu á vímuefnaneyslu.

"Eitt af því sem mikilvægt er að hafa í huga í því sambandi er að magn þess tíma sem foreldrar verja með börnum sínum skiptir miklu máli. Þannig virðist greinilega ekki nóg að hamra á því að eyða gæðatíma með börnum sínum, tímamagnið skiptir ekki síður máli," sagði hún