SÉRSTÖKUM kapítula í sögu Formúlu-1 lauk er Olivier Panis hætti keppni í lok síðustu vertíðar. Fyrir vikið verður enginn franskur ökuþór meðal keppenda í ár en fara verður meira en 30 ár aftur í tímann til að finna önnur dæmi þess.

SÉRSTÖKUM kapítula í sögu Formúlu-1 lauk er Olivier Panis hætti keppni í lok síðustu vertíðar. Fyrir vikið verður enginn franskur ökuþór meðal keppenda í ár en fara verður meira en 30 ár aftur í tímann til að finna önnur dæmi þess.

Panis telur að Franck Montagny, tilraunaþór Renault, sé verðugur þess að keppa. Hvetur hann Bernie Ecclestone til að hefja samstarf við franska akstursíþróttasambandið um að koma því til leiðar að franskir ökuþórar keppi á ný í Formúlu-1.

Frá upphafi vega árið 1950 hafa 66 franskir ökuþórar keppt í Formúlu-1 og hafa þeir unnið sín á milli 79 mót, Alain Prost, margfaldur heimsmeistari, þó langflest þeirra. Meginástæðan fyrir þessum fjölda er að franskir aðilar og lið á borð við Elf, Matra, Gitanes og Renault hafa um dagana tekið marga þeirra upp á arma sína.

Skortur á frönskum ökuþórum á rásmarki Formúlu-1 mun bitna á franska kappakstrinum, segir framkvæmdastjóri hans, Jacques Regis. "Sé enginn franskur ökuþór meðal keppenda mun áhuginn að mestu einskorðast við Renault-liðið. Ég er búinn að taka málið upp við Ecclestone, en hvað getum við gert annað? Það er ekki auðvelt að koma ökuþór inn á liðin," segir hann.

Heimildir herma að Renault-liðinu sé t.d. ekki sérstaklega í mun að franskur ökuþór, eins og Montagny, keppi fyrir hönd þess. Val ökuþóra snúist um getu þeirra en ekki þjóðerni en hnattræn markaðslögmál hafa og sín áhrif.

Árið 1980 voru sjö franskir afburðagóðir ökuþórar meðal keppenda, einnig fimm árum seinna en 1990 voru þeir sex og 1995 þrír. Í ár sinna þrír ökuþórar tilraunaakstri fyrir liðin, Panis, Montagny og Franck Perera sem er þróunarþór Toyota.

Enginn hörgull er þó á góðum frönskum ökuþórum. Skemmst er að minnast að Sébastien Bourdais varð bandarískur meistari í CART-kappakstrinum, systurkeppni Formúlu-1, í fyrra. Hann varð og meistari í formúlu-3000 árið 2002. Liðsstjóri hans, Michael Andretti, segir Bourdais með meiri bílstjórn og tæknilega færari ökuþór en Juan Pablo Montoya og sé sá síðarnefndi þó í miklu uppáhaldi hjá sér. Sagt er að hann hafi ekki fengið starf í Formúlu-1 vegna þess að hann ekur með gleraugu!

Þá varð Sebastien Loeb heimsmeistari í ralli í fyrra og vegna velgengni Citroën og Peugeot í þeirri grein hefur áhuga Frakka beinst þangað. Hefur ökuþórum því reynst erfiðara en áður að fá styrktaraðila til að kosta sig til keppni í brautarkappakstri. Útlitið í þeim efnum þykir ekki gott því mikill fjöldi fyrirtækja hefur í ár og fyrra sett gríðarlegt styrktarfé til baráttunnar fyrir því að Frakkar fái Ólympíuleikana 2012.

Franskur kappakstur á því í vanda um þessar mundir en ökuþórar gefa ekki upp vonina um keppni í Formúlu-1. Montagny hefur sannað sig sem tilraunaþór og á hliðarlínu eru m.a. Perera, Loïc Duval, Nicolas Lapierre, Alexander Prémat og Olivier Pla sem allir hafa verið sigursælir í Formúlu-3 undanfarin ár. Tveir fyrstnefndu keppa í Evrópuröðinni í þeirri grein í ár en hinir allir í arftaka Formúlu-3000 í ár, GP2-mótunum, og vona að með góðum árangri þar nái þeir augum liðsstjóra í toppgrein kappakstursins.