Sveitakeppni kvenna.

Sveitakeppni kvenna.

Norður
10543
Á1082 N/Enginn
863
K5

Vestur Austur
G76 D2
5 KDG763
K1094 G752
Á9874 6

Suður
ÁK98
94
ÁD
DG1032

Íslandsmót kvenna í sveitakeppni fór fram um síðustu helgi og sigraði sveitin ELVA, en nafnið er myndað af upphafsstöfum liðsmanna, sem eru: Esther Jakobsdóttir, Ljósbrá Baldursdóttir, Valgerður Kristjónsdóttir og Anna Þóra Jónsdóttir.

Í spilinu að ofan reyndu mörg NS-pörin fjóra spaða, sem engin leið er að vinna með réttri vörn. Þrjú grönd er á hinn bóginn spennandi samningur, sér í lagi eftir opnun austurs á veikum tveimur í hjarta. Þetta var ein sagnröðin:

Vestur Norður Austur Suður
- Pass 2 tíglar * Dobl
Pass 2 hjörtu Pass 2 grönd
Pass 3 grönd Allir pass

* Multi - sexlitur í hálit og veikt.

Multi-opnun austurs gerði það að verkum að NS fundu ekki samleguna í spaða. Sem var í raun mikil blessun.

Vestur kom út með einspilið í hjarta og nú þarf sagnhafi að vanda sig. Hvernig myndi lesandinn spila?

Það er of hættulegt að dúkka hjartað, því austur mun vafalítið skipta yfir í tígul og þá hrynur spilið. Eftir sagnir liggur hjartað væntanlega 6-1, svo sagnhafi ætti að stinga upp ás og spila spaða á níuna heima.

Vestur fær slaginn og getur ekkert af sér gert, en segjum að hann spili spaða um hæl. Sagnhafi sækir þá laufásinn og sér þar leguna. En það er ekkert til að hafa áhyggjur af, því vestur mun fyrr eða síðar lenda inni á fimmta laufinu þar sem hann á ekkert eftir nema tígul til að spila upp í ÁD.