Um 180 manns hafa skráð sig til þátttöku á landsþingi Frjálslynda flokksins. Arna Schram segir nánar frá þinginu.

BARÁTTAN um varaformannsembættið mun óneitanlega setja svip á landsþing Frjálslynda flokksins sem hefst á Kaffi Reykjavík í dag. Gunnar Örlygsson þingmaður tilkynnti í vikunni að hann hygðist bjóða sig fram á móti sitjandi varaformanni Magnúsi Þór Hafsteinssyni þingmanni.

Gunnar segir m.a., þegar hann rökstyður framboð sitt, að flokkurinn hafa hneigst of mikið til vinstri á síðustu tveimur árum. Hann vilji því sveigja flokkinn aftur til hægri. Núverandi forysta flokksins virðist ekki á sama máli og má því búast við að staða og stefna flokksins, í þessum efnum, verði rædd á landsþinginu.

Fæstir treysta sér til að spá fyrir um úrslitin í varaformannskjörinu. Víst er að Gunnar hefur ekki stuðning Guðjóns A. Kristjánssonar, formanns flokksins, en hann hefur sagt að tími Gunnars sé einfaldlega ekki kominn; Gunnar sé ungur og efnilegur en framboð í forystusæti flokksins sé ekki tímabært.

Sigurður Ingi Jónsson, sem skipaði fyrsta sæti á framboðslista Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurk norður í síðustu þingkosningum, hefur hins vegar stigið fram á hið pólitíska svið og lýst yfir stuðningi við Gunnar. Sigurður Ingi sagði sig úr flokknum fyrir ári, vegna óánægju með tjáningarform Magnúsar Þórs, en hefur gengið til liðs við flokkinn að nýju.

Um 180 manns, úr öllum kjördæmum landsins, hafa skráð sig til þátttöku á þinginu. Koma flestir frá Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, að sögn Margrétar Sverrisdóttur, framkvæmdastjóra flokksins.

Formaður flokksins flytur setningarræðu síðar í dag, og á morgun fara m.a. fram umræður um ályktanir þingsins. Kosningar fara fram um miðjan dag og þinginu verður slitið síðdegis. Um þrjátíu nýir félagar hafa skráð sig í flokkinn á síðustu dögum, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu flokksins. Tengjast þær nýskráningar eflaust varaformannsslagnum, en langt í frá að um víðtæka smölun sé að ræða.

En það eru fleiri sem ganga í flokkinn þessa dagana. Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra, gengur nefnilega formlega til liðs við Frjálslynda flokkinn í dag. Hann tekur með sér um þrjátíu stuðningsmenn sína, sem fram að þessu hafa tilheyrt óháða hlutanum, í Frjálslyndum og óháðum. Ólafur segir að innganga hans í flokkinn sé eðlilegt framhald af því góða samstarfi sem hann hafi átt við flokkinn á þessu kjörtímabili í borgarstjórn.

Starfar í stjórnarandstöðu

Drög að ályktunum, sem þinginu er ætlað að fjalla um og samþykkja, eru flest byggð á starfi málefnaþings flokksins sem haldið var fyrir ári. Ekki er því talið að tekist verði á um þau á þinginu. Í þeim er m.a. komið inn á velferðarmál, byggðamál, menntamál, utanríkismál og sjávarútvegsmál.

Málefnin eru fjölbreytt enda segja þeir flokksmenn, sem blaðamaður ræddi við, að þeir hafi verið að reyna að breikka málefnagrundvöll flokksins, síðustu árin. Flokkurinn sé því síður en svo "eins máls flokkur", eins og gjarnan var haldið fram, fyrst eftir að flokkurinn var stofnaður árið 1998.

Einstakir þingfulltrúar geta auk þess lagt fram ályktunartillögur á þinginu, og hefur Gunnar Örlygsson þegar boðað að hann muni leggja fram tillögu um að landsþingið samþykki ályktun um 15% flatan skatt, þ.e. sömu tillögu og Verslunarráð kynnti í síðasta mánuði. Sú tillaga sé í anda þeirrar stefnu sem hann vilji að flokkurinn tileinki sér, þ.e. hann vill að flokkurinn móti sér stefnu sem frjálslyndur hægri flokkur.

Gunnar og stuðningsmenn hans leggja þannig áherslu á að framboðið sé einkum fram komið vegna óánægju með stefnu flokksins. Þeir segja að flokkurinn hafi hneigst of mikið til vinstri, eins og áður sagði. Áherslur Samfylkingar og Vinstri grænna séu til að mynda eltar uppi í flestum málum. Flokkurinn sé því kominn langt frá uppruna sínum því hann hafi verið klofningsframboð frá Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma.

Forysta flokksins virðist hins vegar ekki vera á sama máli. Hún telur að stefna flokksins byggist á sama grunni og hún hafi alltaf gert. Ekki megi þó gleyma því að flokkurinn sé í stjórnarandstöðu og sem slíkur hafi hann m.a. tekið þátt í samstarfi við hina stjórnarandstöðuflokkana. Það þýði m.a. að ná þurfi ákveðinni millilendingu í sumum málum.

Magnús Þór bendir aukinheldur á að hann hafi ekki orðið var við að Gunnar hafi verið málefnalega ósammála forystu flokksins síðustu misserin. "Ef hann situr á hægri hugmyndafræðilegum brunni þá er það brunnur sem ég hef enn ekki séð," segir hann.

arna@mbl.is

Höf.: arna@mbl.is