Guðmundur Magnússon fæddist í Reykjavík 28. apríl 1929. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 14. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Magnús Gunnar Guðmundsson skipstjóri, f. í Höfn í Dýrafirði 13. september 1894, d. 29. júlí 1945, og Svava Sigurðardóttir, f. í Kjarna í Eyjafirði 11. febrúar 1893, d. 20. febrúar 1966. Þeim Magnúsi og Svövu varð fjögurra barna auðið, þau voru, auk Guðmundar, Sigríður húsmóðir, f. 2. nóvember 1919, d. 18. ágúst 1994, maður hennar var Egill Th. Sandholt verslunarmaður, f. 16. maí 1912, d. 5. júní 1987; Páll pípulagningameistari, f. 20. desember 1922, d. 21. ágúst 1995, kona hans var Fríða Helgadóttir, f. 30. ágúst 1923, þau skildu; og Guðmunda Magnúsdóttir Coldeira, f. 18. júlí 1927, maki Robert Coldeira.

Hinn 11. mars 1951 gekk Guðmundur að eiga Evu Maríu Jost húsmóður, f. í Mannheim í Þýskalandi 15. júlí 1926. Foreldrar hennar voru Helmuth Jost bankastjóri, f. 25. okt. 1890, d. 18. janúar 1978, og Anneliese Jost, fædd Kanzler, f. 31. júlí 1903, d. 12. júlí 1977.

Börn Guðmundar og Evu eru: 1) Helmuth Alexander framkvæmdastjóri, f. 31. ágúst 1950, kvæntur Guðnýju Júlíusdóttur kennara, f. 14. mars 1951. Börn þeirra eru a) Sigmar Örn, f. 18. mars 1977, sambýliskona Soffía Jóhannesdóttir, f. 22. sept. 1974, dóttir þeirra er Rósa Marí, f. 4. okt. 2000, auk þess á Sigmar soninn Alexander Þór, f. 21. apríl 1996, með Önnu Stellu Guðjónsdóttur; b) Júlía Margrét, f. 21. apríl 1977, sambýlismaður Steingrímur Árnason, f. 16. maí 1977, dóttir þeirra er Katrín Sigríður, f. 30. júlí 1998, og c) Bjartmar Oddur Þeyr, f. 27. feb. 1983. 2) Sigurbjörn Rúnar Walter matreiðslumaður, f. 1. júní 1955, kvæntur Sigríði Jónsdóttur leikskólastjóra, f. 28. des. 1956. Börn þeirra eru: a) Jón Geir, f. 3. des. 1979, b) Eva María, f. 28. des. 1981, sambýlismaður Davíð Örn Benediktsson, f. 16. sept. 1982, og c) Guðmundur Magnús, f. 29. apríl 1989. 3) Signý Berglind kennari, f. 4. júlí 1961, gift Guttormi Bjarnasyni bónda í Skálholti, f. 10. júní 1959. Dætur þeirra eru: Droplaug, f. 2. júní 1986, Alexandra, f. 31. ágúst 1989, og Margrét, f. 7. janúar 1996. 4) Anna Lísa jarðfræðingur, f. 4. júní 1962, sambýlismaður Birgir Pétursson vagnstjóri, f. 30. des. 1952.

Guðmundur ólst upp hjá föðurbróður sínum og fjölskyldu, Kristjáni Guðmundsyni og Guðbjörgu Guðjónsdóttur, á Arnarnúpi í Dýrafirði frá fimm ára aldri, tólf ára fór hann til Reykjavíkur og lauk gagnfræðaprófi. Í framhaldi hóf hann nám í bifvélavirkjun. Árið 1946 réð hann sig til Magnúsar Gunnarssonar bónda á Ártúnum í Rangárvallasýslu, þar kynntist hann Evu og fluttu þau til Reykjavíkur og hófu búskap í Karfavogi 1950 og síðar í Kringlumýri en þau bjuggu lengst af á Sogavegi og nú síðast í Vogatungu. Guðmundur lauk meistararéttindum í bifvélavirkjun 1959 og rak sitt eigið verkstæði á Kringlumýrarvegi 8. Síðar starfaði hann við fag sitt hjá eftirtöldum verkstæðum: Agli Vilhjálmssyni, Heklu, Sveini Egilssyni og Stillingu. Guðmundur stundaði sjómennsku í fimm ár og var lengst af á togaranum Víkingi. Síðast og að lokum starfaði hann hjá byggingarfélaginu Ármannsfelli í fimmtán ár. Guðmundur bjó með kindur og hesta í Reykjavík frá árinu 1969, fyrst í Selásnum, en síðar var hann einn af frumbyggjum Fjárborgar í Hólmsheiði, þar sem hann byggði fjár- og hesthús.

Útför Guðmundar fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag kveð ég föður minn, Guðmund, nú ert þú farinn frá okkur endanlega. Eftir hetjulega baráttu. Pabbi fjarlægðist okkur smátt og smátt, við áttuðum okkur ekki á því hvað var að gerast, og hann ekki heldur. Alszheimer er sjúkdómur sem erfitt er að ráða við, í baráttunni eyðast persónutöfrar en blikið í augunum hvarf þó ekki. Hann tók þessum sjúkdómum ekki vel. Þetta heilsuleysi hefti hann. Hann elskaði það að vera á ferðinni, líta við og fylgjast með sínu fólki. Að lokum var heilsan orðinn svo léleg að hann treysti sér ekki að koma með í bíltúr og þá skildi ég það hvað hann var orðinn veikur.

Eftir andlátið er gott að geta minnst þeirra góðu stunda sem við áttum saman.

Ekki var stúlkukindin há í lofti þegar hún var dregin á hestbak framan á hnakkkúluna og þeyst af stað á toppgæðingi fögrum og reistum þannig að faxið bylgjaðist í andlit litlu stúlkunnar. Oftast var farið á vit ævintýra og sungið var undir.

Hestamennska og fjárbúskapur áttu hug hans allan á mínum æskuárum. Á þessum tíma var hesthúsið okkar í Selásnum, en seinna var byggt í Fjárborginni. En ekki var nóg að búa með hesta heldur eignuðumst við líka kindur og mörg önnur dýr.

Ófáar ferðir fengum við krakkarnir að fara í fjallið með pabba. Þar fengum við krakkarnir óspart hvatningu og góða tilsögn hvernig við ættum að fara fyrir féð.

Smíðaáhugi pabba var alltaf fyrir hendi. Tvisvar var byggt í Fjárborg og síðast sumarbústaður í Seljadal. Þar kom teikningin beint úr kollinum á honum. Síðustu árunum eyddi hann uppi í bústað við smíðar. Í bústaðnum voru síðan haldnar stórar grillveislur þar sem fjölskyldan og vinir komu saman. Þetta voru góðar stundir.

Nú er þessum tíma lokið og annar tekur við, minnast mun ég hans sem uppátækjasams og ævintýralegs föður, sem gerði hlutina sjálfur á sinn hátt og við fengum að vera með ef við vildum.

Að lokum er starfsfólki Sunnuhlíðar sent ómælt þakklæti, pabbi fékk að dvelja þar í tæpt ár, þar var hugsað um hann með alúð og kunnáttu.

Kveðja

Anna Lísa.

Elsku pabbi.

Nú ertu horfinn á braut. Margs er að minnast og margt er að þakka.

Það fyrsta sem ég man var þegar þú leyfðir mér að rífa sundur blöndungana á verkstæðinu þínu, þá fjögurra ára. Þú varst bifvélavirki og vannst við það um tíma. Ungur keypti ég bíla og gerði upp. Þú leyfðir mér að gera við þá eftir mínu höfði, þú hvattir mig, jafnvel þó að steypt væri í gólfin, en alltaf gat ég samt leitað ráða hjá þér.

Þú varst til sjós. Mikið voru dagarnir skemmtilegir þegar þú komst heim úr siglingum. Leikföngin voru ekki af verri endanum. Eitt skiptið tókstu mig með til Grænlands og Þýskalands.

Náttúran og dýrin áttu stóran sess í lífi þínu og tengdi okkur sterkum böndum. Þú og mamma gáfuð mér hest í fermingargjöf. Ófáar stundir áttum við saman í gegnum búskap okkar í Fjárborg, enda bæði vinna og gleði sem fylgdi þeim stað. Margar ferðir fórum við austur fyrir fjall til að sækja hey. Yfirleitt gengu þessar ferðir vel, en ekki alltaf. Hlassið átti til að hallast eða það kviknaði í því út frá pústinu. Hestaferðirnar voru líka margar og sú síðasta í Skálholt 2003.

Þú varst iðinn við smíðar. Margar sögur hef ég heyrt um byggingaframkvæmdir þínar í upphafi búskaps ykkar mömmu. Þá tóku við byggingaframkvæmdir í Fjárborg. Þú varst sístarfandi og síðustu árin dundaðir þú við að byggja sumarbústað. Þú varst úrræðagóður og hlutir sem engum hefði dottið í hug að kæmi að notum, fengu nýtt hlutverk í höndum þínum.

Hlutverkaskipti í þínum huga voru skýr. Karlar draga björg í bú, konur gæta bús og barna. Það féll því ekki inn í myndina þegar ég sagði þér að nú ætlaði ég að hætta að vinna því von væri á barni. Móðirin í skóla, svo það kæmi í minn hlut að sjá um barnið. Þú horfðir á mig og spurðir: Og hvenær kemst þú þá út? Þó tekist væri á um hlutverkaskiptin bárum við alltaf virðingu fyrir skoðunum hvors annars.

Pabbi. Við Dista, Jón Geir, Eva María og Guðmundur Magnús þökkum þér fyrir samfylgdina. Hvíldu í friði.

Þinn sonur

Sigurbjörn.

Það var fyrir tæpum þrjátíu árum sem ég kynntist Mumma. Það var um haust og staðurinn var Lögbergsrétt. Þarna sá ég hluta af ríki hans. Tengdapabbi var lengst af með hesta og kindur sér til gamans og áttu skepnurnar mikinn hluta frítíma hans í umönnun og góðum stundum.

Þegar árin liðu og við fluttum í sveit fór hann að hafa ríka ástæðu til þess að koma og heimsækja okkur og eignast dýrmæt stefnumót við landið og náttúruna í sinni kyrrð og fegurð. Eftir því sem ég kynntist honum betur sá ég vel hversu mikið hann unni sveitinni og því sem þar fer fram. Mér er ljúft að þakka fyrir alla hugulsemi og aðstoð sem hann hefur veitt mér og minni fjölskyldu því alltaf var viðkvæðið vantar eitthvað, er eitthvað sem ég get gert fyrir ykkur? Eins var umhyggjan í orðum hans sem fylgdu okkur er við kvöddumst, elskurnar farið þið varlega, þið eruð með dýrmætan farm. En þannig leit hann á fjölskylduna og afadæturnar.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Elsku Eva, megi góður Guð vera þér nálægur og veita þér og fjölskyldunni styrk í sorginni.

Þinn tengdasonur

Guttormur.

Elsku afi.

Þegar við lítum til baka eru margar góðar minningar sem við eigum um þig.

Ein af fyrstu minningum okkar síðan við vorum litlar eru þegar þú spilaðir á okkur eins og á harmónikku. Við engdumst um af hlátri og gátum varla andað, okkur kitlaði svo mikið, en samt vildum við alltaf meira.

Eftir að við fluttum í Skálholt komuð þið amma oft til okkar. Tilhlökkunin var alltaf mest á vorin þegar þið komuð í sauðburðinn og um jólin því þá gistuð þið alltaf í nokkra daga.

Á vorin fórum við stelpurnar með þér út í fjárhús til að fylgjast með lömbunum. Þú varst svo mikill dýravinur og hjálpaðir mörgum lömbum að komast í heiminn. Þú hafðir líka gaman af hestum. Á sumrin þegar þú og amma komuð, leið ekki löng stund þar til við létum okkur hverfa fram í Skálholtstungu til að kíkja á folöld. En þegar þið komuð um jólin var tilhlökkunin mikil hjá þér að smakka á jólahangikjötinu.

Stundum komst þú í pössun til okkar á meðan amma fór til útlanda. Þá vöknuðum við snemma, fórum niður í eldhús og löguðum handa þér kaffi og spjölluðum saman. Alexandra fékk líka alltaf sérstakt hlutverk með mjög nákvæmum leiðbeiningum frá ömmu um hvaða töflur þú ættir að taka.

Um síðustu jól þegar þú varst inni á Sunnuhlíð varst þú orðinn of veikur til að geta komið í sveitina yfir jólin. Jólin voru tómleg og það vantaði þig til að gera þau eins og þau voru alltaf.

En við vorum samt svo heppnar þegar við heimsóttum þig á milli jóla og nýárs, þá varstu svo glaður og ánægður að sjá okkur og sú stund mun seint gleymast.

Við kveðjum þig nú með söknuði, en engill þinn mun ávallt vera með okkur.

Með kveðju

Droplaug, Alexandra og Margrét í Skálholti.

Að lokum eftir langan, þungan dag,

er leið þín öll. Þú sest á stein við veginn,

og horfir skyggnum augum yfir sviðið,

eitt andartak.

Og þú munt minnast þess,

að eitt sinn, eitt sinn, endur fyrir löngu

lagðir þú upp frá þessum sama stað.

(Steinn Steinarr.)

Elsku afi. Það er sárt að sjá þig fara en við vitum að þú ert hvíldinni feginn. Við munum minnast þín sem þess káta, stríðna og blíða afa okkar, sem þú varst. Takk fyrir allar skemmtilegu stundirnar. Við biðjum guð að styrkja þig, elsku amma.

Bjartmar Oddur og

Júlía Margrét.

Horfinn er gamall vinur, saddur lífdaga. Mig langar til þess að minnast hans nokkrum orðum. Guðmundur bílstjóri eins og hann var alltaf kallaður enda þótt margir væru bílstjórarnir vann hjá Ármannsfelli hf. um áratugaskeið. Hann var einn af þeim fágætu starfsmönnum sem báru hag fyrirtækisins ávallt fyrir brjósti og vílaði ekkert fyrir sér til þess að allt mætti fara sem best. Hann var ætíð boðinn og búinn að þjóna öðrum og aðstoða við að sinna sínum störfum. Um eigin hag sinnti hann lítið.

Hann hafði ungur háð ramma glímu við Bakkus en tekist að sigra hann og var að mér fannst ákaflega farsæll maður. Ég veit að hann aðstoðaði margan manninn í þeirri baráttu sem alkóhólisminn er, en um það ræddi hann aldrei. Ég átti því láni að fagna að kynnast honum betur en flestum öðrum ágætum samstarfsmönnum þegar hann um stund var einkabílstjóri minn. Þá kynntist ég best hve góðum tökum hann hafði náð á lífi sínu og var sáttur við Guð og menn. Þar kynntist ég einnig hversu frábær bílstjóri hann var þegar á reyndi því oftar en einu sinni tel ég að hann hafi bjargað lífi mínu með ótrúlegu snarræði í fljúgandi hálku á leið til Nesjavalla, en þá var fyrirtækið að reisa virkjun þar. Guðmundur var ekki smáfríður maður en ég hef fáum mönnum kynnst á lífsleiðinni sem báru jafn fallega áru og hann. Ég minnist sérstaklega þegar hann ásamt eiginkonu sinni ástkærri kom í heimsókn til okkar hjóna til Stuttgart 1995 og ekki síður þegar hann hélt veglega upp á sjötugsafmæli sitt í Skálholti. Þar fann ég hversu sterklega hann hafði náð að hlúa að því sem er svo mikilvægt, að eiga samheldna fjölskyldu.

Það var yndislegt að njóta samvista við þau hjón á þýskri grund og þar var Guðmundur sem á heimavelli en samt held ég nú að hann hafi hvergi unað hag sínum betur en í kofanum þeirra hjóna en svo nefndi hann jafnan sumarbústaðinn þeirra nærri Reykjavík. Ég votta eftirlifandi eiginkonu, Evu Maríu, börnum og fjölskyldum þeirra einlæga samúð mína.

Ármann Örn Ármannsson.

Það fara blendnar tilfinningar um hugann að sitja hér suður á Kanaríeyjum og minnast Gumma vinar okkar.

Sunnudaginn 13. febrúar heimsótti ég Gumma í Kópavoginn til að kveðja hann áður en ég fór, því ég óttaðist að endalok hans yrðu á meðan ég dveldist á eyjunni okkar góðu. Við spjölluðum saman þótt svörin hafi oft verið kröftugri en í þetta skiptið. Ég spurði hvort hann kæmi ekki bara með mér suður á eyjuna okkar góðu. Þá horfði hann á mig og sagði já. Ekki hvarflaði það að mér að hann tæki þetta svona bókstaflega að ljúka því í skyndi sem eftir var hér á meðal okkar til að vera klár í flugið til Kanaríeyja.

Gummi var alltaf drífandi maður og lét verkin tala. Að festa það á blað sem á daga okkar hefur drifið er einfaldlega ekki hægt, svo mikið er það. Minningarnar varðveitast í huga okkar um ókomna tíð.

Hugur okkar er hjá þér, Eva, þú ert og verður hetja. Tendraðu ljósið í hjarta þínu, af því áttu nóg. Samúðarkveðjur frá eyjunni þar sem við kynntumst.

Þorvaldur, Hanna, Sigurður, Ingunn og Gauti.